142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér kemur meginefnisgrein frumvarpsins til atkvæða. Þar er lögð til mjög mikil lækkun á sérstöku veiðigjaldi fyrir botnfisk, um 16 kr. á þorskígildiskíló. Að vísu er lögð til nokkur hækkun á uppsjávarveiðar á móti og fyrir því standa að sjálfsögðu gild efnisleg rök, og afkoma þar mjög góð, en þetta leiðir engu að síður til þess að tekjur ríkissjóðs munu, miðað við fyrirliggjandi ríkisfjármálaáætlun, lækka um áætlaða 10 milljarða kr. á þessu ári og því næsta — samkvæmt kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins, hv. þm. Jón Gunnarsson. Það standa engin efnisleg rök fyrir svona mikilli lækkun, alls ekki nokkur. Þetta 10 milljarða tekjutap ríkissjóðs er umtalsvert, borar gat í fjárlög yfirstandandi árs og skapar verulega erfiðleika við að koma saman hallalausum fjárlögum á næsta ári. Þetta er ábyrgðarlaust af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og þetta mun ekki greiða götu þess að menn nálgist eitthvert samkomulag um fyrirkomulag sjávarútvegsmála (Forseti hringir.) á Íslandi, þvert á móti. (Gripið fram í.)