142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þau lög sem voru samþykkt hér fyrir fjórum mánuðum í góðri sátt byggðu á miklum undirbúningi, á undirbúningsvinnu sem hófst árið 2009. Þau voru lögð fyrir þingið ekki á síðasta þingi heldur þarsíðasta. Þar voru gerðar miklar athugasemdir við frumvarpið. Því var breytt til samræmis við þær athugasemdir að verulegu leyti, meðal annars athugasemdir sem komu frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins.

Mér finnst það slæleg vinnubrögð og sleifarlag á því að koma fram með frumvarp sem tekur einn þátt þeirra laga, sem byggðu á heildarendurskoðun, kippir þeim þætti úr sambandi til að hverfa aftur til fornra tíma án þess að farið sé í ígrundun og undirbúning, án þess að farið sé í samráð og umræður. Mér finnst þessi breyting vond og mér finnst vinnulagið við hana arfaslakt. Þess vegna segi ég nei.