142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[17:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir vísaði í þingsköp hér áðan um það hvort skylt væri að vísa málinu til nefndar ef þess væri óskað og rakti það að þar sem málið hefði ekki tekið neinum breytingum væri ekki skylt að gera það.

Ég vil taka fram af þessu tilefni að ég tel að málflutningur hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar, um þetta atriði hér áðan, eigi mjög mikinn rétt á sér. Það var haldið áfram fundi í gærkvöldi, 2. umr. um þetta mál fór fram eftir miðnætti. Það var ekki sótt um leyfi fyrir lengri þingfundi í gær eins og þingsköp kváðu á um vegna þess að forseti leit væntanlega svo á að verið hefði samkomulag um það. Á þingflokksformannafundi seint í gærkvöldi kom fram að Píratar voru ekki sammála því að fundi yrði haldið áfram lengur en til miðnættis. Mér þykir það heldur smásálarlegt af stjórnarliðunum ef þeir ætla að hafna því að málið fari að minnsta kosti á stuttan fund í nefndinni.