142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[17:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta var rætt á þingflokksformannafundum sem ég sat. Á öllum þeim fundum nefndi ég margoft að Píratar væru ekki aðilar að þeim samningi sem aðrir flokkar hefðu gert með sér um þinglok. Forseti hafði á einhverjum tímapunkti sagt: Ætlið þið nokkuð að láta greiða atkvæði um þetta? Ég á ekki að hafa tekið eftir því þó að ég hafi margsagt að ég væri ekki aðili að neinu samkomulagi. Ég á ekki að hafa tekið eftir því að hann hafi sagt þetta og þá túlkaði forseti það sem svo að þögn væri sama og samþykki. Það er mjög óeðlilegt á svona fundi eftir að hafa sagt mörgum sinnum að við værum ekki aðilar að þessum samningi. Ég vakti athygli á því að umræðan um þetta mál hófst eftir miðnætti, 16 mínútur yfir tólf í gær. Það hefði alveg verið hægt að halda þessum þingfundi áfram. Það átti bara að tryggja að samþykki hefði verið fyrir því. Hann taldi að það væri svo. Það var ekki svo. Þess vegna biðjum við um að fá málið aftur í nefnd.