142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[17:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einhver smámisskilningur í gangi því að ég taldi að samið hefði verið um ræðutímann um þetta frumvarp, að hann væri tvær klukkustundir og yrði skipt jafnt á milli flokka. En ég skal með glöðu geði taka þetta andsvar sem til mín var beint.

Hér er hafinn upp söngur sem ég kannast mjög vel við, og hefur verið haldið við lengi, að stjórnarskráin okkar sé ófullburða plagg og sé fengin að láni og sé ekki stjórnarskrá Íslendinga.

Ég vil benda þeim sem halda því fram á að lesa sér til um stjórnarskrána. Stjórnarskrá Íslands, eins og aðrar stjórnarskrár, á sér rót aftur í tímann allt til frönsku byltingarinnar, þannig að slíkt tal á sér ekki stoð í veruleikanum.

Það frumvarp sem hér er til umræðu snýr ekki að því að skrifuð verði ný stjórnarskrá, svo að það sé bara sagt líka. Verið er að leggja til nýtt breytingarákvæði á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar þannig að ef þetta frumvarp verður samþykkt, hvort sem það verður með minni hluta atkvæða þingmanna eða naumum meiri hluta, verður það að gildum stjórnarskipunarlögum. Það þýðir að við erum með tvö breytingarákvæði stjórnarskrárinnar í gildi næstu fjögur ár og ég tel það mjög varhugavert. Ekki síst í lögfræðilegu ljósi tel ég mjög óheppilegt að þetta frumvarp, verði það að stjórnarskipunarlögum, verði hliðstætt breytingarákvæðinu og komi inn sem bráðabirgðaákvæði að stjórnarskránni.

Ég fullyrti hér áðan, virðulegi forseti, hef að vísu ekki gert á því rannsóknir, að hvergi í hinum vestræna heimi, í löndum sem við berum okkur saman við og í ríkjum sem hafa sjálfstæða stjórnarskrá, sé nokkurs staðar að finna slíkt bráðabirgðaákvæði, því að stjórnarskráin er kjölfestan og á ekki að hanga uppi á bráðabirgðaákvæðum.