142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Frumvarpið sem við höfum hér til umfjöllunar er afurð glataðra tækifæra. Tækifæra sem síðasta þing hafði alla tæknilega burði til að grípa ef vilji hefði verið til þess. Ef vilji hefði verið fyrir því að hlusta á þjóðina. Ef vilji hefði verið til að gera breytingar sem meðal annars rannsóknarnefnd Alþingis mæltist til að gerðar yrðu á stjórnarskrá lýðveldisins. Ef vilji hefði verið til að breyta rétt, en viljinn var ekki til staðar. Ég get varla rifjað upp síðustu daga nýliðins kjörtímabils ógrátandi.

Forseti. Þótt ég og 67% þeirra sem kusu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október síðastliðinn hefðum viljað sjá allt annað frumvarp en það sem var samþykkt í lok síðasta kjörtímabils leit það frumvarp þokkalega út þegar það var upphaflega lagt fram. Gert var ráð fyrir auknum meiri hluta, eða 60% atkvæða, bæði á þingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu til að stjórnarskrárbreytingar gætu tekið gildi. Breytingartillaga kom frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem gerði ráð fyrir enn auknum meiri hluta á þingi, eða 66%, og inn kom þátttökuþröskuldur í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að einfaldur meiri hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu dugði, einfaldur meiri hluti dugði til að samþykkja breytingar en þó þannig að 25% allra kosningarbærra manna gyldu frumvarpinu jáyrði.

Þetta þótti mér á sínum tíma of mikið af því góða og mér var því allri lokið þegar flutningsmenn tillögunnar gerðu nýja breytingartillögu á milli 2. og 3. umr. sem gerði ráð fyrir 40% þátttökuþröskuldi og það sem var enn meira sláandi var að nánast engin umræða var hér á þinginu um þá breytingartillögu. Hún var ekki tekin til almennrar umræðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ekki voru kallaðir til sérfræðingar og ekki gefið ráðrúm til umsagna. Ekki var mælt sérstaklega fyrir þessari tillögu á þingfundi því að hún gekk beint til atkvæða við lok 2. umr. án þess að umræða færi fram. Að kvöldi sama dags fór 3. umr. fram með afbrigðum við þingsköp. Nokkru eftir miðnætti var frumvarpið samþykkt með þessari breytingu.

Forseti. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð þegar um stjórnarskrá lýðveldisins er að ræða. Nú hefur frumvarp samhljóða því sem samþykkt var í skjóli nætur undir lok síðasta kjörtímabils verið lagt fram og þær raddir heyrast að óþarft sé að ræða efni frumvarpsins sérstaklega vegna þess að það megi hvort eð er ekki breyta því.

Jafnvel þótt ekki megi breyta frumvarpinu vilji menn á annað borð að breytingarnar taki gildi hlýtur nýtt þing með nýfengið lýðræðislegt umboð að vilja fara yfir málið. Það er einmitt ástæðan fyrir því að rjúfa þing þegar breyta á stjórnarskránni. Nú vill svo til að mikið er af nýju fólki á Alþingi og eðlilegt að nýir þingmenn sem ekki tóku þátt í umfjöllun um málið á síðasta kjörtímabili vilji kynna sér það í þaula, en þá nýju hv. þingmenn skortir einnig alvarlega að sýna málinu einhvern áhuga, eins og sjá má af nánast tómum þingsal líkt og svo oft áður þegar verið er að ræða mikilvæg mál.

Þegar þetta mál var tekið til umfjöllunar, þegar var verið að fara yfir nýja stjórnarskrá út frá tillögum stjórnlagaráðs voru fengnir erlendir sérfræðingar á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem lýstu því viðhorfi að þátttökuþröskuldur væri ekki óeðlilegur þegar um stjórnarskrárbreytingar væri að ræða en hann ætti alls ekki að vera hærri en 20–25%. Ég barðist fyrir því að það yrði lækkað niður í 20% af því að mér þótti 25% hátt. 40% er nánast ókleifur veggur.

Forseti. Þegar þjóðin greiddi atkvæði um frumvarp stjórnlagaráðs í október 2010 tóku 49% kosningarbærra manna þátt. 67% vildu að frumvarp stjórnlagaráðs yrði lagt til grundvallar við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ef ákvæði frumvarpsins sem hér er til umræðu hefði verið í gildi við þessa þjóðaratkvæðagreiðslu hefðu tæplega 82% kosningarbærra manna þurft að mæta á kjörstað. Þá er rétt að benda á að það er ekki sérstaklega lýðræðislegt ferli sem býður upp á þann möguleika að hafa áhrif með því að sitja heima hjá sér, enda er það grundvallarregla í lýðræðisríkjum að þeir sem láta sig lýðræðið varða og mæta á kjörstað ráði niðurstöðum kosninganna en ekki þeir sem kjósa að sitja heima.

Aldrei í lýðveldissögunni hefur tillaga um svona háan samþykkisþröskuld í þjóðaratkvæðagreiðslu komið fram. Aldrei. Í ljósi þess og þeirra atriða sem ég hef þegar nefnt hefði verið rík ástæða til þess að tryggja málinu vandaða þinglega meðferð og kalla eftir umsögnum sérfræðinga og félagasamtaka sem láta sig málið varða. Það var ekki gert. 40% þröskuldurinn var settur inn í skjóli nætur og samþykktur í skjóli nætur. Stuðningsmenn þessa þátttökuþröskuldar vilja gjarnan bera söguna fyrir sig og telja þátttökuþröskuldinn ekki of háan og vísa til þjóðaratkvæðagreiðslunnar við lýðveldisstofnunina máli sínu til stuðnings. Sá samanburður er algjörlega fáránlegur enda varðaði sú atkvæðagreiðsla sjálft sjálfstæði þjóðarinnar og ekki ástæða til að óttast dræma þátttöku um slíkt grundvallarmál fyrir örlög þjóðar.

Allt frumvarpið ber það með sér að vera illa unnið. Má þar fyrst nefna að ekki er tekið fram í frumvarpinu að þjóðaratkvæðagreiðslan eigi að vera leynileg og látið er duga að geta þess í greinargerð að gengið sé út frá því að hún verði það. Hvernig er hægt að ganga út frá því ef það er ekki tekið fram í lagatextanum?

Forseti. Í greinargerð sem lögð var fram með frumvarpinu á 141. löggjafarþingi sem og í greinargerð sem fylgdi þeirri breytingartillögu sem samþykkt var kemur fram að frumvarpið sé lagt fram í þeim tilgangi að ná sem víðtækastri sátt á Alþingi um framhald og lyktir þeirrar víðtæku endurskoðunar sem staðið hefur undanfarin ár. Þá kemur einnig fram að með þeim breytingum sem lagðar eru til verði heimilt að afgreiða stjórnarskrárbreytingar óháð þingkosningum.

Ef þessar tvær leiðir eru bornar saman, sú sem nú þegar er í gildi í 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar og sú leið sem hér er lögð til, verður ekki séð að frumvarpið bjóði fram betri lausn en þá sem þegar er í gildi. Samkvæmt 79. gr. stjórnarskrárinnar þarf einfaldur meiri hluti þings að samþykkja breytingar á stjórnarskrá og er þing þá rofið og boðað til almennra kosninga. Nýtt þing getur þá staðfest breytinguna með sama einfalda meiri hluta og áður. Verði frumvarpið sem er til umfjöllunar að stjórnarskipunarlögum getur aukinn meiri hluti þings, 66%, samþykkt frumvarp til stjórnarskipunarlaga og þá þurfa 40% allra kosningarbærra manna í landinu að samþykkja breytingar í þjóðaratkvæðagreiðslu til að þær verði að lögum.

Það gefur augaleið að sú aðferð sem þegar er í gildi er í raun mun raunhæfari og vænlegri til árangurs þrátt fyrir þann galla á henni að þjóðin er ekki beinn þátttakandi í ferlinu og getur einungis veitt umboð í almennum kosningum.

Á þetta er bent í umsögn um frumvarpið frá Samtökum um nýja stjórnarskrá. Ljóst má vera að sú tillaga sem lýst er í frumvarpinu er síður en svo fallin til þess að markmið um farsælan endi á þessu stjórnarskrárferli náist og eins og má heyra á stjórnarliðum, þar á meðal hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, er enginn áhugi á að gera heildarendurskoðun á stjórnarskrá okkar. Það er enginn áhugi hjá þessari ríkisstjórn og ég er sannfærð um að þegar til kastanna kemur verði beitt nákvæmlega sömu aðferðafræði og hefur alltaf verið gert. Eitthvert mál sem er kallað eftir, eins og til dæmis auðlindir í þjóðareigu eða eitthvað áþekkt, mun koma inn á þingið rétt fyrir lok þessa kjörtímabils. Þannig verður það, eins og alltaf, og við munum ekki ná fram neinum af þeim viðamiklu og mikilvægu breytingum sem við bárum undir þjóðina. Við bárum þetta undir þjóðina 20. október og hún sagði já.

Þessi ríkisstjórn mun ekki virða þann mikla þjóðarvilja. Hún hefur sagt það. Ég hef miklar áhyggjur af þessu máli. Það er því mat minni hlutans að afar mikilvægt sé að þjóðin komi með beinum hætti að breytingum á stjórnarskrá. Sú leið sem er lögð til hér er hins vegar ekki lýðræðisleg enda óraunhæft að gera ráð fyrir jafn mikilli þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum og þyrfti til að leiðin gæti verið árangursrík. Þá er í raun mun auðveldara að nýta það ákvæði sem fyrir er í stjórnarskránni. Því fer fjarri að bíða þurfi með breytingar á stjórnarskrá þar til við enda kjörtímabils. Það er hægt að rjúfa þing oftar en með fjögurra ára millibili. Það mætti til dæmis rjúfa þing fyrir 70 ára afmæli lýðveldisins vilji flutningsmenn frumvarpsins halda þau markmið að gefa þjóðinni nýja stjórnarskrá í afmælisgjöf á næsta ári.

Sú leið að rjúfa þing á miðju kjörtímabili er mun lýðræðislegri en sú leið sem er lögð til í frumvarpinu sem er til umfjöllunar. Hún tryggir til að mynda að þær kosningar sem haldnar yrðu í kjölfar þingrofs mundu varða nýtt umboð sérstaklega til að breyta stjórnarskrá og slíkar breytingar mundu þannig síður falla í skuggann af hefðbundnum kosningamálum.

Minni hlutinn leggst alfarið gegn samþykkt þessa frumvarps enda felur það í sér tálsýn sem mundi grafa undan þeim skilningi að raunverulegra lýðræðisumbóta sé þörf. Frumvarpið er því steinn í götu lýðræðisumbóta en ekki skref í átt til þeirra og það hryggir mig mjög, forseti, mjög. Ég óttast það sem kom fram í máli eins gestanna sem komu fyrir nefnd stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en sá gestur taldi að þetta væri aldeilis gott, ekki aðeins bráðabirgðaákvæði heldur sem ákvæði til frambúðar í stjórnarskrá Íslands. Ég hef áhyggjur af slíkum málflutningi.

Ég hef áhyggjur af því að ef við samþykkjum þetta verður í framtíðinni 40–50% þröskuldur í stjórnarskrá okkar, stjórnarskrá sem á að vera stöðugum breytingum háð af því að samfélag okkar breytist stöðugt. Hver einasta kynslóð á að fá tækifæri til þess að hafa aðkomu að stjórnarskrárbreytingum. Það er ekki rétt sem kom fram í ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur að núgildandi stjórnarskrá sé plagg sem ekki stóð til að breyta. Það stendur og kemur fram í fylgigögnum um núgildandi stjórnarskrá okkar að þetta hafi verið bráðabirgðaplagg. Maður sér það þegar skoðað er til dæmis hlutverk forseta lýðveldisins, það er nánast eins og hlutverk Danakonungs á þeim tíma. Maður sér þegar maður skoðar stjórnskipun, þrískiptingu valdsins, að verulega þarf á því að halda að við breytum stjórnarskránni. Við þurfum að breyta stjórnarskránni og hafa heildrænt plagg.

Það sama kom fram hjá þeirri nefnd sem Alþingi fól að fara yfir málefni Íbúðalánasjóðs. Þar kemur fram að kerfið í kringum Íbúðalánasjóð sé svo gallað að það þurfi að byggja frá grunni. Það er ekki hægt að vera með stöðugan bútasaum í stjórnarskrá landsins. Stjórnarskráin þarfnast heildrænnar endurskoðunar, við erum með slíka heildræna endurskoðun í höndunum. Það er því með trega sem ég upplýsi hér — og það hefur ekki komið nægilega fram enda verða engar umræður um þetta mál, búið er að semja um að það verði bara rætt um þessa breytingu í tvo tíma og kannski verða þetta einu umræðurnar um nýja stjórnarskrá á þessu yfirstandandi þingi — það hryggir mig að fara eigi að setja breytingar á nýrri stjórnarskrá í nefnd.

Við vorum með ferli og það var ekki gallalaust og ýmis atriði sem þarf að skoða og laga í plagginu sem við fengum frá stjórnlagaráði. Það hefur komið fram að laga þarf ýmislegt í orðalagi en efnislega er hin nýja stjórnarskrá sem við fengum frá stjórnlagaráði stórkostleg. Hún gerði mig mjög stolta af því að vera Íslendingur, ef ég hefði fengið að búa í samfélagi sem tekur ákvörðun um að þetta sé samfélagssáttmálinn okkar. Mér finnst við ekki sýna þeirri vinnu sem fór fram á síðustu fjórum árum nægilega virðingu með því að gjaldfella lýðræðið á þann hátt sem við gerum með því að samþykkja 40% þröskuld á stjórnarskrárbreytingar á stjórnarskrá lýðveldisins.