142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[18:07]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, flutt af hv. þingmönnum Árna Páli Árnasyni, Katrínu Jakobsdóttur og Guðmundi Steingrímssyni, sé tekið til umræðu hér á ný og hef trú á því að samþykkt þess leiði til þess að vinna að nýrri stjórnarskrá geti haldið áfram.

Eðli málsins samkvæmt eru stjórnarskrárumbætur mér hugleiknar enda bauð ég mig fram til stjórnlagaþings 2010 og settist í stjórnlagaráð árið 2011. Hvaða mat sem fólk kann að hafa á innihaldi frumvarps stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá er ljóst að um merkilegt og dýrmætt ferli var að ræða. Ekki síst vegna þess hve stjórnlagaráð endurspeglaði margbreytileikann í samfélaginu vel og vegna þess hve margir, hagsmunasamtök, sérfræðingar og einstaklingar, höfðu greiðan aðgang að ferlinu og þar með mikil áhrif. Almennt tel ég það sem slíkt geta verið öðrum, t.d. stofnunum í íslensku samfélagi, til eftirbreytni. Þar með töldu Alþingi Íslendinga.

Eins og öll önnur vinna er frumvarp stjórnlagaráðs þó ekki yfir gagnrýni hafið og mikilvægt fyrir alla sem að málinu standa að viðurkenna það og fagna því að svona margir hafi skoðanir á þessari vinnu. Það segir sína sögu um það hve mikilvægt frumvarpið er og hve marga það snertir. Ég verð þó að viðurkenna að það hefur fyllt mig mikilli sorg að fylgjast með því hvernig stjórnarskrármálið hefur þróast, ekki síst eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem vilji þeirra sem tóku þátt var skýr og afdráttarlaus. Ég nenni hreinlega ekki að staldra lengi við þá umræðu af því að hún er bara ótrúlega sorgleg en vil þó segja eftirfarandi:

Við höfum augljóslega um tvennt að velja. Það er hægt að velja það að hafna þessu frumvarpi og koma þannig í veg fyrir hugsanlegar breytingar á stjórnarskrá á þessu kjörtímabili. Það mundi þó í mínum huga endurspegla ákveðinn ótta sem virðist hafa ríkt við stjórnarskrárbreytingarnar og viðhalda vantrausti hér innan borðs á hv. Alþingi.

Hinn möguleikinn í stöðunni er að samþykkja þetta frumvarp og skapa þannig rými fyrir alla, óháð því hvar þeir standa í málinu, til að halda áfram vinnu við breytingar á stjórnarskrá. Ég lít á það sem einstakt tækifæri til að hefja nýjan kafla í þessu ferli, þar sem virðing ríkir fyrir ólíkum sjónarmiðum, hroki og sérhagsmunir verði settir til hliðar og þannig skapað traust á milli okkar þingmanna og ólíkra flokka sem hér starfa svo að hægt sé að komast að endanlegri niðurstöðu; niðurstöðu sem er fengin í sátt, niðurstöðu sem þjóðin getur svo fengið tækifæri til að kjósa endanlega um hvort henni líki eða ekki.

Hvaða stjórnmálaskoðanir eða aðrar skoðanir sem við kunnum að hafa tel ég ekki að það eigi að koma í veg fyrir að við sýnum þessu ferli virðingu. Þeim orðum beini ég ekki eingöngu til þeirra sem hafa verið mótfallnir stjórnarskrárbreytingunum í heild sinni heldur til okkar allra sem höfum komið að þessari vinnu. Þar er ég með talin.

Virðulegi forseti. Mikil umræða hefur verið um það undanfarin missiri að endurreisa þurfi traust og virðingu Alþingis. Ég tel að það að hefja nýjan kafla í stjórnarskrárbreytingum sé góð leið til þess. Þessi virðing og það traust sem alltaf er verið að tala um kemur nefnilega ekki utan frá. Það verður að eiga sér stað hér innan frá. Endurreisnin á traustinu og virðingunni verður að byrja hjá okkur í þessum þingsal.