142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[18:22]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vera mjög stuttorður um þetta. Ég er og hef verið þeirrar skoðunar að stjórnarskráin, sem í gildi er, sé í aðalatriðum mjög góð. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það eru nokkur atriði sem þarf að breyta, breyta og laga. Það þarf að setja auðlindaákvæði, það þarf að setja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu, það þarf að skerpa á hlutverki og störfum forseta Íslands og ég tel mikilvægt að starf í þá átt fari fram á yfirstandandi þingi.

Ég tel því rétt að samþykkja umrætt frumvarp þó að það hafi ýmsa galla. Það er galli að hafa bráðabirgðaákvæði í stjórnarskrá. Það er galli að hafa val um það hvor leiðin verður farin við að samþykkja nýja stjórnarskrá. Þetta er mjög óheppilegt ástand en nauðsynlegt vegna þess að ekki tókst betur til á síðasta kjörtímabili í breytingum á stjórnarskránni. Kannski var það vegna þess að ferlið sem farið var í var gallað, það var óheppilegt og ég held að það sé fullreynt.

Ég lít svo á að um þessi stóru aðalatriði sé talsverð sátt, eða að minnsta kosti sé hægt að ná sátt um þau. Ég legg áherslu á það, svo að breytingar á stjórnarskránni frestist einfaldlega ekki í ein átta ár, að þetta frumvarp verði samþykkt og menn fari í þá vinnu sem hægt er að ná sátt um. Þetta er sáttmáli og það þýðir ekki að fara þá leið að reyna að knýja skoðanir sínar í gegn á hnefanum. Við verðum að ná hér þokkalega góðri sátt.