142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[18:37]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Mig langaði til að blanda mér rétt aðeins í þessa umræðu í restina, ætla ekki að hafa langa ræðu en langar bara rétt til að hnykkja á mikilvægi þessarar breytingar. Með henni er verið að gera það mögulegt að halda áfram þeirri vinnu sem hefur verið í gangi eiginlega linnulítið frá 2005 með einum eða öðrum hætti. Ekki er verið að gera það auðvelt að breyta stjórnarskránni með því að breyta 79. gr. hennar en verið er að breyta tímarammanum á því hvernig breytingarnar eru gerðar. Það er hugmynd, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson benti hér á áðan, sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur nokkrum sinnum komið fram með á síðasta kjörtímabili og er góðra gjalda verð. Hún felur það í sér í stuttu máli og nokkuð einfölduðu að aukinn meiri hluti þings geti ásamt þjóðaratkvæðagreiðslu gert breytingar á stjórnarskránni.

Mér finnst þetta mikilvægt í ljósi þess að þessi lota breytinga frá 2005 hefur staðið yfir allan þennan tíma með margvíslegum hætti og þetta gefur okkur færi á að halda áfram þeirri hrynjandi sem er í málinu. Það er mikil vinna sem liggur til grundvallar, stjórnlagaráðs, stjórnlaganefndar, þjóðfundar, nefndar sem kennd hefur verið við Jón Kristjánsson; og ekki má gleyma þeirri vinnu sem fram fór í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, allsherjarnefnd þar áður.

Ég hef sjálfur verið viðloðandi þetta mál með einum eða öðrum hætti í fjögur ár og er mjög mikill áhugamaður um að því verði lokið. En ég hef alltaf verið talsmaður þess að menn reyni að gera það í eins mikilli sátt og mögulegt er. Þetta er mál þeirrar tegundar sem á að vera hafið upp yfir hefðbundin átök stjórnmálaflokkanna. Það er eitt í breytingarákvæðinu, núgildandi 79. gr., sem hefur gert stjórnarskrárbreytingar erfiðari en ella. Það er innbundið í okkar stjórnmálakerfi, og ekki bara Íslendinga heldur allra stjórnmálakerfa lýðveldis- og lýðræðisríkja veraldar, að menn takast á um mismunandi álitaefni skömmu fyrir kosningar og það hefur einfaldlega komið í ljós að það er mjög óheppilegt að reyna að fjalla um stjórnarskrártengd málefni í aðdraganda kosninga þegar það er keppikefli stjórnmálaflokka að marka sér sérstöðu, að sýna hvernig þeir eru öðruvísi og jafnvel betri en aðrir stjórnmálaflokkar.

Ég vona að með þeirri breytingu, sem hér fæst vonandi samþykkt, sé búinn til rammi þar sem við náum, og mögulega strax í sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári, að koma einhverjum breytingum, sem við náum samkomulagi um í þeirri vinnu sem fram undan er, í gegn. Þá væri mögulegt fyrir okkur næsta vetur að ljúka breytingum sem sátt væri um hér í þinginu og vísa þeim til staðfestingar í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum 2014.

Nú er ég ekki hluti af þeim meiri hluta sem stendur á bak við ríkisstjórnina en ef maður setur sig út fyrir það þá held ég að það væri jafnvel pólitískt klókt, svo að maður noti það orðalag, af þeim meiri hluta að ná slíkum breytingum í gegn. Ég held að mikill sigur gæti verið í því fólginn fyrir ríkisstjórnina og auðvitað væri mikill sigur í því fólginn fyrir þingið, meiri hluta og minni hluta, að geta náð samstöðu um einhverjar þær breytingar sem menn hafa verið að ræða um á stjórnarskránni á komandi vetri. Við sjáum til hvernig því vindur fram.

Mig langaði bara að leggja áherslu á að þetta er tímabundið ákvæði sem eykur möguleika okkar á því að halda áfram með þá vinnu sem fram hefur farið, og það er vel.