142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[18:57]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Með þessari breytingu er opnað á þann möguleika að gerðar séu breytingar á stjórnarskránni á kjörtímabilinu en satt best að segja hefur það á undanförnum árum reynst pólitíkinni afar erfitt að takast á við stjórnarskrárbreytingar í aðdraganda kosninga.

Með þessu opnast tækifæri til að taka málið úr þeim átakafarvegi sem einkennt hefur það og þetta gefur okkur von um að við getum haldið þeirri vinnu áfram sem staðið hefur nær óslitið frá 2005 í umbótum að stjórnarskránni. Það er mikil vinna sem liggur að baki, margt sem hægt er að taka tillit til en málið hefur þokast töluvert langt áfram. Það er mikilvægt að það renni ekki út í sandinn og menn geti haldið áfram þessari vinnu og mögulega náð, í samstöðu hér á þinginu, einhverjum breytingum fram á stjórnarskránni sem hugsanlega væri hægt að senda í þjóðaratkvæðagreiðslu meðfram sveitarstjórnarkosningum 2014. Það væri mjög ánægjulegt.