142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hægt að fara í umræðu á þessum nótum ef menn kjósa að gera það. Ég taldi að ég hefði gert málefnalega grein fyrir því í ræðu minni hver staðan er. Við erum að sjá taka gildi í fyrsta skipti í haust lagaskyldu um að koma með tekjuöflunarfrumvörpin samhliða fjárlagafrumvarpinu. Fyrrverandi ríkisstjórn, sem hafði starfað allt kjörtímabilið síðasta, sem sagt á síðasta ári, og reyndar hafði Samfylkingin þá verið í ríkisstjórn frá árinu 2007, kom ekki fram með tekjuöflunaraðgerðirnar fyrr en í nóvember. En eins og hv. þingmaður talar þá er það létt verk sem hefði verið hægt að hrista fram úr erminni samhliða fjárlagafrumvarpinu ef menn hefðu bara nennt því.

Auðvitað er ekki um það að ræða að menn hafi komið sér í einhver vandræði með því að gefa eftir af tekjum ríkissjóðs eins og látið er í skína. Það hefur ekkert með málið að gera. Ef það væri nú eini vandinn mundi hann bara einfaldlega birtast í fjárlögunum. Og fyrst hv. þingmaður hefur þetta miklar áhyggjur af stöðu ríkissjóðs — vegna aðgerða stjórnarinnar, sem ég tel að muni til lengri tíma verða þjóðarbúinu til heilla, með því að skapa lífvænleg skilyrði fyrir útgerðina í landinu og aðra atvinnustarfsemi — væri ágætt að hann mundi líka tjá sig um þann uppsafnaða 30 milljarða halla, eða þar um bil, sem ríkisstjórnin fékk í fangið og alltaf er látið sem hafi verið í kortunum og hafi ekki átt að koma neinum á óvart.

Ég vænti þess, miðað við orð þingmannsins, að í haust, þegar fjárlagaumræðan fer fram, muni líta dagsins ljós ráðstafanir, einhverjar tillögur, um það hvernig takast eigi á við þann uppsafnaða vanda sem fráfarandi ríkisstjórn skildi eftir sig.