142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að mæla fyrir frumvarpi forsætisráðherra um breytingar á þingsköpum. Ég reikna með að hæstv. ráðherra sé kunnugt um að við ýmis í mínum þingflokki erum mjög ósátt við það hvernig þetta mál ber að, framlagningu þess og hugmyndafræðina þar á bak við. Ég er í þeim hópi.

Ég vil inna hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra eftir því, ekki síst sem formann í stærsta stjórnmálaflokki landsins, hvort hann telji að almennt sé góður bragur á því að breyta þingsköpum, sem eru ramminn utan um starfið hér í Alþingi, án þess að um það sé alger samstaða milli þeirra flokka sem starfa á Alþingi og eiga að starfa eftir þeim reglum sem gilda. Mér finnst mikilvægt að fá fram svar hæstv. ráðherra við því.

Ég vil líka spyrja hann að því hvort honum sé kunnugt um að í þingskapanefnd, sem starfaði á síðasta kjörtímabili, og lagði meðal annars til þær breytingar sem menn eru að víkja sér undan núna, með tekjuöflunarfrumvarpinu og fjárlögin á sama tíma, hafi verið lögð sérstök áhersla á það, ekki síst af þáverandi þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, núverandi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að þetta yrði gert með þessum hætti og að umræddur þáverandi þingflokksformaður hafi sérstaklega gagnrýnt fyrrverandi ríkisstjórn fyrir að vera ekki farin að fara eftir þessum lögum þó að þau hefðu ekki þá tekið gildi. Hvernig samrýmist það því frumvarpi og þeirri hugsun sem liggur á bak við frumvarpið sem nú liggur fyrir þinginu?