142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að almenna reglan hlýtur að vera sú að við náum samstöðu um breytingar á þingsköpunum. Það var sannarlega reynt að gera það að þessu sinni. Það er almennt ekki góður bragur á því að breytingar á þingsköpum séu gerðar í ágreiningi hér í þinginu. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um það. Mér sýnist þó að mjög ríflegur og góður meiri hluti sé fyrir þessari breytingu að þessu sinni og mér finnst að að baki henni séu mjög skýr og málefnaleg rök. Komið er til móts við þau sjónarmið sem heyrðust í þeirri umræðu að mönnum þætti slæmt að þing kæmi yfirhöfuð ekki saman í september með því að þessu þingi verður þá frestað fram í september og þar verða að minnsta kosti nokkrir þingdagar.

Varðandi breytingar á þingskapalögunum vísa ég til þess sem ég vék að áðan að ég tel — þó að ríkur stuðningur hafi verið við málið eins og það kom út úr þingskapanefndinni og það prinsipp að fjárlögunum fylgdu tekjuöflunarfrumvörpin og fjárlögin kæmu síðan fram eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir á þingsetningardegi sem hefur verið færður fram — að taka eigi tillit til sérstakra aðstæðna sem upp geta komið á kosningaári og það er kjarni þessa máls. Það er ekki verið að breyta almennu reglunni. Það er einungis verið, með bráðabirgðaákvæði, að taka afstöðu til haustsins sem er fyrsta þingsetning að kosningum afstöðnum.

Ég ætla líka að leyfa mér að vekja athygli á því að þær breytingar sem þingmaðurinn víkur sérstaklega að og leggur áherslu á að fylgt sé fólu það meðal annars í sér að setja ætti fram ramma fyrir fjárlögin í apríl á þessu ári og það var ekki gert.