142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir að bregðast við þeim spurningum sem ég beindi til hans. Hann gat þess sérstaklega í sínu máli að tilefni gæti verið til þess að hafa sérstaka reglu á kosningaári hvað varðar þingsetningu, framlagningu fjárlagafrumvarps og tekjuöflunarfrumvarpa.

Nú getur það auðvitað gerst að í kjölfar kosninga sitji áfram sama ríkisstjórn og er þá tilefni fyrir hana til að fá slíka heimild eða hafa slíka heimild? Það getur líka gerst að skipt sé um ríkisstjórn á miðju ári án þess að það sé kosið og væri þá ekki tilefni til þess að við slíkar aðstæður væri þá líka heimild í þessu efni? Í mínum huga gengur þetta ekki alveg upp. Mér finnst mikilvægt að það sé festa í þessu, þingsetningardagurinn sé ákveðinn. Við ákváðum hann með lögum annan þriðjudag í september. Hann má mín vegna alveg vera fastur 10. september, 12., 13. eða hvað menn kjósa í því efni í hugsanlega breyttum þingsköpum í framtíðinni.

Ég vil líka inna hæstv. ráðherra, vegna þess að hann sagðist gera ráð fyrir því að sett yrði á laggirnar sérstök þingskapanefnd í haust, eftir því hvort það sé ásetningur ríkisstjórnarflokkanna að sett verði í gang almenn vinna við endurskoðun á þingsköpum næsta vetur með þingmannanefnd skipaðri fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. Mundi ráðherrann vilja beita sér fyrir því, líkt og gert var á síðasta kjörtímabili, að stjórnarandstaðan ætti hlutdeild í forustu slíkrar nefndar? Það var tryggt á síðasta kjörtímabili, þegar Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að forustu þeirrar nefndar sem þá starfaði, og það var gert í þeim anda að reyna að tryggja sem besta samvinnu á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og tryggja sem mesta samstöðu og það náðist reyndar í þeirri nefnd sem starfaði á síðasta kjörtímabili.