142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið þróun allt síðasta kjörtímabil að menn voru stöðugt að reyna að vanda og bæta vinnuna við fjárlagagerðina. Það var að hluta til gert vegna ábendinga frá erlendum eftirlitsstofnunum, sem flestar bera skammstafanir, svo sem Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD. Þær stofnanir lögðu upp með úttekt á veikleikum í verklagi við fjárlagagerð á Íslandi á undanförnum árum og áratugum sem hafa komið okkur í koll. Ég fagna því að myndast hefur mikil þverpólitísk samstaða um úrbætur á því sviði.

Hluti af því umbótaferli var það að í fyrsta sinn skyldi taka gildi þessi krafa um að fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvörp yrðu lögð fram saman. Það ræður þeirri afstöðu minni að greiða ekki atkvæði gegn þessari breytingu og leggjast ekki gegn henni enda er þetta í fyrsta sinn sem ætlunin var að gera þetta og mér þykir mikilvægt að vera sanngjarn í samskiptum við nýja ríkisstjórn. Ég tel miklu skipta að á móti hafi menn raunhæfar væntingar um hverju verði hægt að koma fyrir á haustþinginu að öðru leyti og ítreka það sem ég segi í því efni. Auðvitað eru vinnubrögð fyrri tíma, hvort sem það var í fyrra, hittiðfyrra eða fyrir fimm árum, í fjárlagagerð ekki til fyrirmyndar. Það er þess vegna sem við höfum verið að vinna saman að því að breyta vinnubrögðunum.