142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Til að vera ærlegur við hv. þingmann vil ég taka fram að enginn hefur samið fyrir mína hönd um það að fallast á þetta. Ég er algerlega á móti því að veita þennan frest og gæti fært margar ástæður fyrir því. Kannski geri ég það, ég ætla ekki að spilla þessu þinghaldi með málæði. Ef ríkisstjórnin vill þetta verður hún að taka það í gegnum meiri hlutann en ekki með mínu atkvæði.

Ég verð að segja það, með virðingu fyrir heimshreyfingu anarkista, að mér finnst það vont að þegar loks anarkistar og Píratar eiga fulltrúa í þessum sölum þá skuli þeir fallast á röksemdafærslu ríkisstjórnarinnar. Ég er á móti því fyrir hönd þeirra sem hefðu hugsanlega við aðrar aðstæður getað hugsað sér að kjósa Pírata. Mér finnst það ekki boðleg rökfærsla að segja sem svo: Jú, við skulum fallast á þetta af því að ríkisstjórnin segir við okkur að hún geti ekki verið klár með þessi frumvörp.

Hlustaði ekki hv. þingmaður á hæstv. fjármálaráðherra? Hann er yfirleitt ákaflega skýr í tali, rökfastur maður og einn af þeim stjórnmálamönnum sem reynir ekkert að hlaupa undan með sín svör. Hann færði engin rök fyrir þessu. Hvað sagði hann? Að það væri illframkvæmanlegt? Hvað er það sem er illframkvæmanlegt við þetta? Er svona erfitt að taka ákvarðanir um hvernig á að skera niður á móti 10 milljörðunum sem hæstv. fjármálaráðherra gaf stórútgerðinni? Er það svo erfitt að taka ákvarðanir um einhvers konar tekjuaukningu á móti sem þýðir ekkert annað en skatta? Eða er svona erfitt að komast að því, sem lá dulið í stefnuyfirlýsingunni, að það ætti bara að auka skuldir ríkisins? Mætti draga af þessu þá ályktun að um það væri ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar til hvaða aðgerða ætti að grípa? Í öllu falli, og nú tala ég fyrir gamla anarkista, finnst mér ekki hægt af fulltrúum þeirrar hreyfingar að fallast á svona málflutning af hálfu ríkisstjórnar án þess að einhver rök fylgi. Menn eiga ekki að taka hlutina eins og þeir eru lagðir fram. Menn eiga að skoða á bak við þá.