142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans andsvar. Í því fólst svar við spurningum sem ég bar fram til hans áðan í andsvari við hann og ég þakka fyrir það svar. Ég skynja góðan vilja ráðherrans til að þingskapavinnan næsta vetur verði í góðri samstöðu og samvinnu stjórnmálaflokkanna og ég tek orð hans á þann veg.

Hvað varðar umbætur sem orðið hafa í vinnu þingsins í fjárlagagerðinni þá er ég sammála hæstv. ráðherra, ég tel að margvíslegar umbætur hafi orðið í því efni. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir vísaði meðal annars til þeirra breytinga sem orðið hafa á meðferð svokallaðra safnliða sem ég tel að hafi gert vinnu þingsins hnitmiðaðri. Ég tel einnig að ýmsar aðrar breytingar sem fjárlaganefnd vann á síðasta kjörtímabili, yfirleitt í mjög góðri samstöðu allra flokka í nefndinni, hafi verið til bóta. Ég er líka sammála hæstv. ráðherra um að breytingar á fjárreiðulögum og umgjörðinni geta að sjálfsögðu bætt þessa vinnu enn betur. En slíkar breytingar munu trauðla taka gildi fyrir haustþing því að það þarf undirbúning að því.

Ég óttast að á hausti komanda muni sú breyting sem hér er lögð til, þó hún sé aðeins einskiptisaðgerð — og ég viðurkenni það fúslega, það er betri svipur á því en ef þetta hefði verið varanlegt — eingöngu og fyrst og fremst stytta þann tíma sem þingið hefur til umráða til sinnar vinnu í málinu vegna þess að aðrar breytingar sem ráðherrann vísaði til verða varla komnar til framkvæmda.