142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:40]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því sem ráðherrann segir, ég tel að hægt sé að gera enn betur en við höfum verið að gera að undanförnu og þróa starfshætti í þinginu áfram til betri vegar og má gjarnan draga lærdóm af því hvernig ýmis önnur þjóðþing í kringum okkur starfa. Ég held að flestir sem hafa kynnt sér og kynnst starfi annarra þjóðþinga viti það og viðurkenni að yfirleitt er meiri regla á hlutum þar en við höfum þekkt hér. Þessar lotur sem hér verða oft á haustin og í afgreiðslu fjárlaga eru ekki endilega til eftirbreytni. Ég tek undir það að það að reyna að dreifa þessari vinnu við fjárlagagerðina, með römmum að vori og öðru slíku, væri tvímælalaust til bóta.

Ég tel að við eigum að halda áfram að þróa vinnuumhverfi okkar og þingsköp, umgerðina um okkar störf fram á við. En ég leyni því ekki, eins og ég sagði hér áðan, að ég tel að það frumvarp sem hér liggur fyrir sé frekar skref aftur á bak eða til gamals tíma heldur en hitt. En ég vona sem sagt að við eigum eftir að eiga, þrátt fyrir skoðanaágreining um þetta mál, gott samstarf á næstu missirum í þróun þingskapa Alþingis.