142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það var bagalegt að tekjuöflunarfrumvörp komu svo seint fram sem raun bar vitni á sínum tíma. Við vorum hins vegar sammála, taldi ég, ég og hv. þingmaður, þingmenn þáverandi stjórnarandstöðu og stjórnar, um að það bæri að bæta úr því. Það var partur af viðleitni okkar til að auka vald löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu að setja það einfaldlega með þessum hætti skýrt í lög. Því er ekki hægt að mótmæla að þetta var nokkuð sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu árum saman, vetrum saman, talað um með nokkuð skýrum rökum með vísan í reynsluna úr þessum ræðustól.

Ég sat ekki í þingskapanefndinni sem hv. þingmaður vitnar til og veit ekki gjörla hvað þar fór fram. Það hefur aðeins verið reifað hér af ýmsum þingmönnum sem sátu þar. Ég sat hins vegar manna lengst og best hér undir þessum ræðum hv. þingmanna sjálfstæðismanna. Ég minnist þess til dæmis að núverandi heilbrigðisráðherra, hinn ágæti og vel virki þingmaður sem sat árum saman í fjárlaganefnd, gekk hér fram fyrir skjöldu. Fyrst heyrði ég þetta úr hans munni, hreifst ekki af þeim rökum til að byrja með en þau eru ágæt. Það sem ég er á móti er að menn skuli koma hingað — ef ég leyfi mér að segja, vaða hingað inn — með tillögu að einskiptisbráðabirgðabreytingu bara til að búa í haginn fyrir ríkisstjórn sem því miður er búin að gera á sig í þessu máli. Það er bara staðreyndin. Ríkisstjórnin er sjálf búin að koma sér í þessa stöðu. Hún er búin að skera undan tekjustofnum ríkisins svo nemur 10 milljörðum og það er alveg klárt, það hefur komið fram í þessum sölum, að ágreiningur hefur verið í ríkisstjórninni um hvernig eigi að mæta því. Það hefur meðal annars leitt til þess að annar stjórnarflokkanna hefur ekki náð að fullu fram markmiðum sínum sem búið var að lýsa yfir að ætti að gera á þessu sumarþingi.