142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson er allra manna bestur í að verja vondan málstað [Hlátur í þingsal.] og því verri sem málstaðurinn er því betri er hann í vörninni. [Hlátur í þingsal.] Þannig hefur sá ágæti maður þroskast hér í þessum sölum, ég veit ekki hvort það er gott eða vont. Hins vegar er algjörlega ljóst að þessi mál voru öll í ólestri löngum. Hér dróst framlagning fjárlagafrumvarps, afgreiðsla þess, fram eftir öllu. Ég minnist ríkisstjórnar, sem Sjálfstæðisflokkurinn veitti forstöðu, sem var ákaflega sein með sitt fjárlagafrumvarp og það endaði með því að menn komu saman milli jóla og nýárs til að klára það. Ég skal að vísu fúslega viðurkenna að ég sat líka í þeirri ríkisstjórn. En menn einhentu sér saman í að reyna að breyta því og ég tel að við höfum náð góðum árangri. Auðvitað var það alltaf undan þrýstingi Alþingis.

Alþingi hefur sem betur fer í vaxandi mæli reynt að reisa skorður við valdsækni framkvæmdarvaldsins sem hefur verið óhófleg, sérstaklega hér einn tiltekinn áratug, nýliðinn, og þess sá stað varðandi framlagningu fjárlagafrumvarpsins. Það er alveg rétt, sem ég reyni ekkert að fela — gæti þá notað sama orðalag og hæstv. fjármálaráðherra, vegna sérstakra aðstæðna, allt svo til að rifja það upp fyrir sumum hv. þingmönnum að hér varð fjárhagslegt hrun — að út af afleiðingum þess dróst úr hömlu að leggja fram tekjuöflunarfrumvörpin sem skyldi. (Gripið fram í.) Flest árin. Að meðaltali tekur fimm ár að vinna upp hrun, það vitum við sem höfum stúderað það og lent í því.

Þingið var hins vegar sammála um að grípa til þessara aðgerða þannig að við vorum sammála um viðbrögð við vondri stöðu. Þess vegna er það ekki í takt við reynslu og málflutning hv. þingmanns að hann skuli koma hér upp og reyna að verja þetta. Ef það er einhver (Forseti hringir.) maður í þessum sölum sem hefur getið sér orð fyrir að verja reglufestu þá er það ekki sá sem hér talar, það er hv. þm. Birgir Ármannsson.