142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[21:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það opinberast í andsvari hv. þingmanns að hann gerir sér ekki grein fyrir því hvernig þetta hefur verið síðastliðin 22 ár. Það er nefnilega þannig að það hefur aldrei gerst, þessi 22 ár sem þingmaðurinn hefur verið hér að störfum, að ríkisstjórn hafi í kjölfar kosninga lagt fram frumvarp fyrir 1. október. Það hefur bara aldrei gerst og allan þennan tíma hefur það einungis í tvígang gerst að fjárlagafrumvarpið hafi komið fram fyrir 1. október. Það var síðastliðin tvö ár í kjölfar breytinga sem gerðar voru á miðju kjörtímabili þegar ríkisstjórnin hafði þá þegar starfað fyrri hluta kjörtímabilsins. Það er þetta sem ég er að vísa til en þingmaðurinn hefur hafnað, það eru sérstakar aðstæður sem ekki voru teknar með í reikninginn þegar síðustu breytingar voru gerðar.

Það var ekki tekið með í reikninginn að stjórnkerfið hefur aldrei þurft að glíma við það í kjölfar kosninga að koma með fjárlagafrumvarpið fyrr en fyrir 1. október og ég vil meina að það sé engum tilviljunum háð að kosningar fara fram á vorin og framlagning fjárlagafrumvarpsins á haustin. Það er þessi taktur sem við höfum verið með í kosningum og upphafi þings í kjölfar kosninga. Það er vegna þess að það þarf þennan tíma sem við höfum fengið að venjast undanfarna áratugi.

Varðandi þriggja og fjögurra mánaða uppgjörið þá er hér ákveðinn misskilningur á ferðinni. Það er út af fyrir sig rétt að heildartekjur ríkisins í fjögurra mánaða uppgjörinu brögguðust miðað við þriggja mánaða uppgjörið en í fjögurra mánaða uppgjörinu var það samt sem áður enn þannig að skatttekjurnar voru verulega undir áætlun. Það voru aðrar tekjur sem voru hærri. Skatttekjurnar eru berandi liður í tekjum ríkisins og af þeirri ástæðu metur fjármálaráðuneytið það þannig (Forseti hringir.) að þessi veikleiki muni vera viðvarandi út tekjuárið.