142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[21:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla svo sem ekki að bera í bætifláka fyrir það að tekjuöflunarfrumvörp komu, sem fyrr, seint fram á árunum 2011 og 2012. En hvað erum við að fjalla um hér? Við erum að fjalla um það að ríkisstjórn, í fyrsta sinn í þá tíð sem ég hef setið hér, í tíu ár, trúlega í fyrsta sinn sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur setið hér, í 22 ár, kemur ekki fram með fjárlagafrumvarp á lögákvörðuðum degi og er í svo mikilli kastþröng með að loka fjárlögum eftir vanhugsaðar ákvarðanir sínar að hún flytur einhliða lagafrumvarp um að það eigi að hætta við að leggja fjárlagafrumvarpið fram á lögákvörðuðum degi.

Virðulegur forseti. Þetta hefur að minnsta kosti ekki gerst mjög lengi og hlýtur annars vegar að stafa af mikilli neyð en lýsir hins vegar skorti á reglufestu, virðingu við lögin sem gilda og nauðsynlegri viðleitni til þess að fylgja þeim í hvívetna, en ekki bara að nota meirihlutavald sitt á Alþingi til að breyta þeim reglum sem gilda um gerð fjárlaga eftir geðþótta sínum.