142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[21:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna talaði hv. þingmaður sem á síðasta kjörtímabili sló Íslandsmet, ef ekki heimsmet, í því að samþykkja með afbrigðum að frumvörp ríkisstjórnar kæmu fram eftir lögákveðinn dag eins og gert var í stórum stíl, bæði um jól og að vori, á hverju einasta ári þessarar ríkisstjórnar. Metið var slegið í fyrravetur þar sem frestir sem gefnir eru í þingsköpum um framlagningu stjórnarfrumvarpa voru ekki virtir heldur var samþykkt með meirihlutaafbrigðum í þinginu að taka — (ÖS: Ekkert mál hjá utanríkisráðuneytinu.) Nei, ekkert mál hjá utanríkisráðuneytinu, það er alveg rétt, þau fóru sína leið en í heildina talið var um að ræða í febrúar, mars og apríl alveg óhemjumörg mál sem komu löngu eftir lögákveðna fresti þannig að við skulum tala aðeins varlega um þessi efni, hæstv. forseti.

Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs í þessari umræðu var fyrst og fremst sú að vekja athygli á því, og ég reyndi að gera það á jákvæðum nótum þó að sumir hv. þingmenn kysu að taka því (Gripið fram í: Hverjir?) sem einhvers konar áskorun um skylmingar í þingsal, (ÖS: Hverjir?) að þó að sú breyting sem við stóðum öll að og styðjum öll kæmi ekki til framkvæmda að fullu á þeim tímapunkti sem áður var áformað sjáum við engu að síður umtalsverðar framfarir að því leyti sem máli skiptir í þessu sambandi. Í því ljósi verður sá hávaði sem nokkrir einstakir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert í þessu máli algjörlega óskiljanlegur, þ.e. þegar horft er á það að við erum að færast miklu nær þeim markmiðum sem við sameiginlega höfum stefnt að. Ég held að við ættum að fagna því saman í staðinn fyrir að búa til risaágreining úr tveimur, þremur vikum eins og sumir hv. þingmenn hafa reynt að gera hér.