142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Elín Hirst (S):

Herra forseti. Þrátt fyrir að ég sé þeirrar skoðunar að ekki skuli eyða hinum dýrmæta tíma Alþingis í eitthvert óþarfaþvaður og vilji vinna að því af öllu hjarta að auka á ný virðingu þess meðal þjóðarinnar tel ég mig samt knúna til að fræða menn örlítið um gallabuxur og verja heiður þeirra. Ég vil líka passa upp á það að við gerumst ekki forpokuð á Alþingi.

Saga gallabuxna hófst í borginni Genúa á Ítalíu á 19. öld þegar frægur baðmullarkaupmaður hóf að framleiða buxur úr þessu efni fyrir sjómenn. Þær þóttu svo góðar flíkur að buxurnar frá Genúa urðu brátt vinsælar meðal sjómanna úti um alla Evrópu.

Franskir fataframleiðendur reyndu líka að líkja eftir buxunum góðu frá Ítalíu en mistókst og það var ekki fyrr en seint á 19. öld sem gallabuxur bárust til Bandaríkjanna og urðu svo gríðarlega vinsælar þar.

Þess má geta að gallabuxur sáust fyrst í Sovétríkjunum árið 1957 á heimsleikum æskulýðs og námsmanna og urðu strax mjög eftirsóttar meðal almennings — en ófáanlegar enda taldar merki um vestræna kapítalíska villutrú. Andófsmenn gerðu sér þess vegna far um að storka yfirvöldum með því að klæðast gallabuxum.

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifaði góða grein um gallabuxur á visir.is. Hún segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að öll helstu tískuhús heims hanni og framleiði gallabuxur í dag í ýmsum sniðum virðast þær þó alltaf settar skör lægra en aðrar buxur í virðingarstiganum. Þær þykja ekki nógu fínar, eru ekki spari, jafnvel órifnar og stífstraujaðar. Kannski er það vegna þess að gallabuxur hafa löngum verið tákn verkamanna, kúreka og hafnarverkamanna, vinnubuxur í verksmiðju.“

Að lokum vil ég vekja athygli á að það viðgengst ákveðið misrétti í þessum málum á Alþingi. Svartar, rauðar, grænar, drapplitar gallabuxur eru leyfðar (Forseti hringir.) en ekki bláar.