142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að blanda mér í þessa umræðu um störf þingsins vegna þess að ég hef nú í tvígang hlustað á þingmenn Framsóknarflokksins fjalla um sæstreng og sölu á raforku um sæstreng eins og það sé einhvers konar brot gegn íslenskri þjóðmenningu. Ég hvet til fordómalausrar og opnari umræðu um þessi málefni. Ég hef heyrt forstjóra Landsvirkjunar tala um það, ef ég man rétt, að væri sú umframorka sem til er í kerfinu seld um sæstreng gætu skapast tekjur upp á um 80 milljarða á ári. Það eru gríðarlegir fjármunir og ég tel að með vandaðri rammaáætlun þar sem menn mundu ákveða hvar ætti að láta staðar numið í virkjunaráformum á Íslandi komi þetta vel til greina.

Reynsla Norðmanna af því að selja raforku með sæstreng til Hollands er afar góð. Þeir borguðu þann sæstreng upp á undraskömmum tíma. Það leiddi til einhverrar hækkunar á raforku meðal landsmanna, en tekjurnar sem þetta hefur skapað eru langt umfram það.

Ef menn vilja til dæmis beita sér í skattalækkunum tel ég að þetta væri mjög góð aðferð til þess. Menn gætu notað 80–100 milljarða til þess að lækka skatta og skapa atvinnu víðs vegar um landið. Það er ekki bara með því að selja raforku ódýrt til stóriðju sem hægt er að skapa störf. Það væri hægt að nýta þessa fjármuni til margs konar nýsköpunar víðs vegar um landið.

Án þess að ég sé að gagnrýna harðlega þessa umræðu ítreka ég að það er mikilvægt að þessi hugmynd sé rædd fordómalaust og menn séu ekki búnir að búa sér til einhverjar sviðsmyndir og útiloka þennan möguleika fyrir fram. Það er mikið glapræði.