142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

úthlutunarreglur LÍN og kjör stúdenta.

[11:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Tildrög þessa máls eru auðvitað kunn og hafa verið rædd, það er sú staða sem upp er komin í ríkisfjármálum, að hallinn á ríkissjóði yrði umtalsvert miklu meiri en áætlað hafði verið. Þær tillögur sem höfðu verið unnar af fyrri stjórn lánasjóðsins báru það með sér að þar var miðað við og reiknað með að staða ríkisfjármála væri sú sem talið var og því væri svigrúm til þess að auka útgjöld sjóðsins um töluverðar fjárupphæðir.

Það kemur síðan í ljós að svo er ekki, staða ríkisfjármála heimilar það ekki og það sem meira er, staðan er það slæm, þegar þessi ríkisstjórn tekur við völdum, að það þarf að skera niður útgjöld og á þessum lið, og reyndar öllum öðrum, er krafa um 1,5% niðurskurð. Er þá einungis verið að mæta reyndar hluta af þeim mikla halla sem við okkur blasir.

Tillaga sem kemur frá stjórn lánasjóðsins er sú að þær breytingar verði gerðar að aftur verði farið til þess námsframvinduhlutfalls sem var hér um langa tíð sem var 75%. Það ber líka að hafa í huga að það er sama námsframvinduhlutfallið og er almennt á Norðurlöndunum. Auðvitað eru til undantekningar á hverjum stað en það er almenna krafan. Ég leyfi mér að halda því fram að þrátt fyrir þau ummæli sem hér hafa fallið, um einhvers konar mannvonsku í þessum málum, verði því vart haldið fram að Norðurlöndin haldi þannig á þessum málum að ekki sé reynt einmitt að mæta þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið rædd og er mikilvægt að mæta.

Af hálfu stúdenta hafa komið fram athugasemdir sem er rétt að bregðast við. Þær hafa verið ræddar í stjórn sjóðsins og ég vil nota þetta tækifæri til að tilkynna að í kjölfar fundar sem ég átti með forustumönnum stúdenta hér fyrir nokkrum dögum eru atriði sem ég tel rétt að verði brugðist við, atriði sem þau hafa sett fram. Í fyrsta lagi er einmitt þessi vandi með 10 einingarnar sem málshefjandi benti á. Til að mæta þeim vanda verður þetta gert þannig að í staðinn fyrir að horfa á önnina eina sér og krefjast 75% árangurs á önninni einni verður horft á skólaárið. Þá verður árið undir sem býr til þetta svigrúm og mætir þeim vanda sem málshefjandi nefndi og stúdentarnir hafa vakið athygli á.

Í öðru lagi hafa líka komið upp áhyggjur af stöðu öryrkja og lesblindra. Þannig er að nú er krafan um 9 eininga námsframvindu og með því að gert er ráð fyrir 75% námsframvindu hækkar sú krafa. Niðurstaðan verður þá sú að ekki verður gerð krafa á þá sem búa við örorku eða lesblindu um að auka námshraðann, það verður áfram sama krafa um námsframvindu gagnvart þeim.

Í þriðja lagi verður horft til þess að sé um að ræða síðustu önn og ekki í boði nægilega margar einingar til að standast 22 einingar, eins og lagt er upp með, verði horft til þess þannig að hægt verður að skilgreina það sem fullt nám, þann einingafjölda sem í raun og veru er eftir.

Þetta er mikilvægt að taka fram, þetta eru athugasemdir sem stúdentarnir hafa komið með til okkar. Að sjálfsögðu höfum við sest yfir þetta af mikilli vandvirkni. En ég vil nefna það enn og aftur að þessi aðgerð sem gerir vissulega auknar kröfur, gerir kröfur um 75% námsframvindu, sömu kröfur og hafa verið hér um langa tíð, sömu kröfur og almennt eru gerðar á Norðurlöndunum, gera okkur þá kleift að hækka um leið grunnframfærsluna um 3%. Framfærslan hækkar og það er þá fyrir stóran, og stærsta, hluta stúdenta sem ég held að sé mjög mikilvægt — það er ein aðalkrafan sem fram hefur komið af hálfu stúdenta að þessi þáttur málsins, þ.e. grunnframfærslan, að bætt verði í þar í það minnsta fyrir verðbólguna.

Samantekið er hér verið að ræða um að taka upp það kerfi sem við höfum haft um langa hríð, sama fyrirkomulag og er almennt á Norðurlöndunum. Ég hef hér með sagt frá því til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að mæta þeim vanda sem meðal annars málshefjandi og stúdentar hafa nefnt (Forseti hringir.) og ég legg áherslu á það að þetta þýðir að námslánin munu hækka.