142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

úthlutunarreglur LÍN og kjör stúdenta.

[11:23]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. menntamálaráðherra er fyrirhugað að breyta úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Eins og staðan er núna er gert ráð fyrir að námsmenn sem ekki glíma við einhvers konar örorku, fötlun, lesblindu eða annað sem sannarlega tefur nám, þ.e. námsmenn sem hafa fulla getu til eðlilegrar námsframvindu, skili að lágmarki 60% af ECTS-viðmiði hverrar annar í sínu námi eða 18 ECTS-einingum á önn.

Fyrirhugaðar breytingar fela í sér að lágmarksnámsframvinda verði 75% eða 22 ECTS á önn. Þessari breytingu fylgir líka að hægt verður að hliðra námsárangri til milli anna og sé þá miðað við að lágmarksnámsframvinda til lánshæfis sé 44 ECTS á skólaárinu. Sú hliðrun er ekki til staðar í núverandi úthlutunarreglum.

Lánsupphæð miðast nú við hverja ECTS-einingu sem námsmaður lýkur. Er upphæð ECTS-einingar nú 21.090 kr. á skólaárinu og námsmaður sem skilar sínum lágmarks 18 ECTS á önn hefur því til framfærslu frá LÍN 84.360 kr. á mánuði.

Námsmaður sem skilar 100% námsframvindu, þ.e. 30 ECTS, fær 140.600 á mánuði.

Auknar kröfur um lágmarksnámsframvindu hafa því í för með sér auknar ráðstöfunartekjur hjá námsmönnum, 106.200 kr. á mánuði miðað við 22 ECTS lágmarkið, og þá 3% hækkun sem hæstv. menntamálaráðherra leggur til að verði samfara þessari breytingu um lágmarksnámsframvindu. Það er því hagkvæmt fyrir námsmenn að skila sem (Forseti hringir.) bestum árangri, bæði fjárhagslega og með tilliti til þess tíma sem fer í námið.