142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

úthlutunarreglur LÍN og kjör stúdenta.

[11:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Niðurskurðarkrafan lá ljós fyrir og við henni varð að bregðast. Það lá líka ljóst fyrir að þær hugmyndir sem fyrri stjórn sjóðsins hafði um verulegan útgjaldaauka gátu ekki gengið fram. Þess vegna var lítill tími frá því að ríkisstjórnin tók við þar til þurfti að bregðast við og skila til fjármálaráðuneytisins tillögum um hvernig yrði brugðist við niðurskurðarkröfunum. Það útskýrir tímann í þessu máli.

Þetta eru markmiðin, ég gerði grein fyrir aðgerðum sem ég tel hægt að grípa til án þess að hverfa frá þeim markmiðum og þeim tilgangi sem hér liggur að baki. Það snýr einmitt að því að mæta þeim vanda sem stúdentarnir hafa bent á. Það er hægt að gera varðandi 10 eininga kúrsa og varðandi samsetningu námsins og með því að líta á námsárið í heild en ekki á hverja önn fyrir sig. Það held ég að skipti verulega miklu máli.

Ég legg líka áherslu á að það skiptir máli hvað varðar öryrkja, lesblinda, þá sem eru í slíkri stöðu, að ekki verða gerðar auknar kröfur á þann hóp. Það verða nákvæmlega sömu kröfur áfram. Áfram eru sömu félagslegu úrræði í Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það er mikilvægt, af því að stundum er umræðan eins og verið sé að afnema þau.

Það sem er að gerast er að námsframvindukrafan verður sú hin sama og var hér um langa tíð. Námsframvindukrafan verður sú hin sama og er á Norðurlöndunum og þetta er námsframvindukrafan sem um er að ræða en ekki upphæð námslánanna eða styrkjanna. Það er styrkur í íslenska námslánakerfinu. Hann dreifist mismunandi en það er styrkur samt. En það er ekki það sem málið snýst um, það snýst um námsframvinduna, réttinn til að fá annaðhvort styrk eða lán. Hversu mikið af náminu þarf að klára á hverjum tíma til að geta nýtt sér þann rétt að fá annaðhvort styrk eða lán, það er málið og um það snýst þetta.

Virðulegi forseti. Ég hlusta á rök stúdentanna, ég bregst við þeim en ég geri það innan þess ramma sem ég hef. Það skiptir máli vegna þess að ég vil auðvitað (Forseti hringir.) gera þetta eins vel og hægt er. Þannig er málið lagt upp. Næsti fundur í stjórn lánasjóðsins er (Forseti hringir.) á þriðjudaginn og þá vonandi verður komin niðurstaða í málið að endingu.