142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

um fundarstjórn.

[11:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá þingflokksformönnum Vinstri grænna, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. Það var búið að gera samkomulag um fyrirkomulag þessa þingdags sem var fyrirhugaður síðasti þingdagur á þessu þingi, þar með talið um ræðutíma í 3. umr. um veiðigjöld sem áformað var að yrði tíu mínútur á hvern stjórnmálaflokk. Þá kemur þessi sprengja frá atvinnuveganefnd og verður að segjast eins og er að formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson, er einkar laginn við að varpa sprengjum inn í þinghaldið.

Það er útilokað að hægt sé að standa við samkomulag eða fara eftir því um ræðutíma í þessu máli sem var gengið frá á fundi þingflokksformanna með forseta fyrr í vikunni þegar svona ný tillaga dettur inn á síðustu metrum. Hana verður að ræða ítarlega og það er krafa okkar að forseti geri hlé á þessum fundi og fundi með þingflokksformönnum um fyrirkomulag á þessum degi.