142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

um fundarstjórn.

[11:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé ekki verið að varpa neinni sprengju inn í þetta mál eins og hv. þingmenn kjósa að kalla það. Það hefur legið fyrir allan tímann að málið færi til nefndar milli 2. og 3. umr. og tekið yrði tillit til einhverra athugasemda sem fram hefðu komið. Ég boðaði hér í gær í ræðu að reikna mætti með breytingum á frumvarpinu.

Ákveðið var að taka kolmunnann út úr álagningu á sérstöku veiðigjaldi, einfaldlega vegna þess að veiðiþátturinn þar ber sig ekki. Það borgar sig ekki fyrir útgerðir að sækja þennan fisk. Þetta getur átt við um fleiri tegundir og meðal annars sagði Jón Steinsson hagfræðingur, sem kom fyrir nefndina, að ef þau dæmi væru uppi ætti að sjálfsögðu ekki að innheimta sérstakt veiðigjald á slíka stofna. Á móti lækkar reyndar sá afsláttur sem er veittur vegna kaupa á kvótum, vaxtaafslátturinn svokallaði, þannig að heildarniðurstaða frumvarpsins er svo til óbreytt, heildarálagning (Forseti hringir.) á sjávarútveginum er svo til óbreytt frá því sem áður var í þessu frumvarpi. Þetta er nú öll sprengjan.