142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

um fundarstjórn.

[11:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Róberti Marshall, það er mikilvægt að fundur forseta með þingflokksformönnum fari fram sem fyrst. Forseti sagði að hann hefði áformað slíkan fund í hádeginu, ég held að hann ætti bara að láta verða af því að gera hlé á þessum fundi nú þegar og boða til þess fundar.

Hv. þingmaður og formaður atvinnuveganefndar sagði í umræðunni í gær að málið gæti farið inn til nefndar á nýjan leik og það gætu komið einhverjar breytingartillögur til þess að gera frumvarpið betra og ná meiri sátt í málinu. Þær tillögur sem hér liggja fyrir auka á gapið á milli þeirra sjónarmiða sem eru uppi í þessu máli. Þetta er ekki til þess að auka sáttina í málinu, virðulegur forseti, nema síður sé. Hér er verið að varpa sprengju á fyrirhugaðan síðasta þingdag með þeim hætti sem meiri hlutinn í atvinnuveganefnd hefur gert. Það verður að fara í umræðu um það milli þingflokksformanna og forseta hvernig farið verður með það samkomulag sem gert var á mánudaginn því að meiri hlutinn hefur sett það í uppnám.