142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

um fundarstjórn.

[11:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég skora á hæstv. forseta að hafa nú þegar þingflokksformannafund. Píratar eru mjög ánægðir með að hafa ekki tekið þátt í neinu samkomulagi sem við erum þar af leiðandi ekki bundin af. Við getum rætt um þau mál sem við viljum svo lengi sem við þurfum.

Þessi breyting á akkúrat því máli sem við höfum lagt mikla áherslu á að sé þess eðlis að þurfa að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ákalls um það færir okkur heim sanninn um að svona vinnubrögð kalla á enn meira aðhald frá þjóðinni og enn meira aðhald frá okkur þingmönnum. Ég legg til að meiri hlutinn dragi þessa breytingartillögu til baka af virðingu við það samkomulag sem hinir minnihlutaflokkarnir gerðu þó með stjórninni.