142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

um fundarstjórn.

[11:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er heldur óþægilegt að fara í efnisumræðu um þetta mál undir þessum lið en það hefur meðal annars formaður atvinnuveganefndar gert í tvígang og ég kaupi ekki röksemdir hans.

Ef skuldaleiðrétting eða skuldaafsláttur reynist ódýrari í framkvæmd að óbreyttum lögum, því að það er ekki verið að leggja til breytingar á því regluverki, upp á 400 millj. kr. á ríkið að sjálfsögðu að njóta þeirra tekna. Það eru engin rök fyrir því að upp úr þurru sé hægt að lækka sérstakt veiðigjald á stóru uppsjávarfyrirtækin um 460 millj. kr.

Það er vissulega rétt að framlegð við að sækja kolmunnann kann að vera minni en í ýmsum öðrum tegundum, en greiðendurnir eru eftir sem áður stærstu og ríkustu sjávarútvegsfyrirtæki Íslands. Það vitum við. Þannig er staðan og það hefur formaður atvinnuveganefndar sjálfur sagt og rökstutt hækkunina á veiðigjöld á uppsjávartegundir. Þetta kemur án nokkurra útreikninga, án nokkurs rökstuðnings. Ég krefst þess að fá útskýringar á því af hverju skuldaleiðréttingin reynist allt í einu á einu kvöldi 400 millj. kr. ódýrari (Forseti hringir.) og hvort ekki megi eitthvað á milli vera, að leggja á (Forseti hringir.) fullt sérstakt veiðigjald á kolmunna eða ekki neitt.