142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[18:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er sú tillaga sem ég talaði um að við hefðum boðað að koma með sem breytingartillögu. Hér erum við að tryggja að þeir sem minnst bera úr býtum í samfélaginu séu ekki skertir króna á móti krónu vegna sérstakrar framfærsluuppbótar og skerðingin verði 80% vegna annarra tekna frá og með 1. júlí en frá og með áramótum verði skerðingarnar 70%.

Þetta er í anda þess frumvarps sem fyrrverandi velferðarráðherra lagði fram og þingflokkur Samfylkingarinnar nú á þessu sumarþingi. Við teljum sérstaklega mikilvægt að þessi breyting nái fram að ganga enda er þetta réttlætismál fyrir þá sem hvað minnst bera úr býtum innan almannatryggingakerfisins.