142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 1. varaformanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir hans framsögu hér fyrir álitinu og fyrir árvekni sína. Við búum svo vel í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að hafa vel lögfróðan mann, Brynjar Níelsson, með okkur. Það var eins gott vegna þess að það frumvarp sem hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flutti hér í gær — eða flutti raunar ekki því að annar ráðherra þurfti að mæla fyrir málinu fyrir hann, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands um breytingu á sjálfum samkomudegi þjóðþingsins sem var tekið hér inn með afbrigðum og með ofbeldi gagnvart minni hlutanum í þinginu — reyndist þegar í morgun vera svo illa úr garði gert að það samræmdist ekki ákvæðum stjórnarskrárinnar og gæti skapað vafa um samkomudag þingsins að ári.

Um leið og ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir að standa vaktina í þessu efni og fyrir glöggskyggni hans spyr ég hann, sem nýjan þingmann og mann sem er vanur að fást við að túlka og vinna með lagasetningu á Alþingi, hvort honum þyki það viðunandi við lagasetningu, og nægilega góður umbúnaður og verklag, að taka breytingar á lögum fyrir með afbrigðum dag eftir dag og að frumvörp frá forsætisráðherra, sem flutt eru fyrir hönd Stjórnarráðs Íslands og öllu því sérfræðistarfsfólki sem þar er, séu svo vanbúin að þau samræmist ekki grundvallarlögum ríkisins þegar til á að taka.