142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis.

Þingsköp Alþingis eru ramminn um starfshætti Alþingis og er mikilvægt að um þau sé einhugur milli þeirra stjórnmálahreyfinga sem sæti eiga á Alþingi, óháð því hverjir sitja í ríkisstjórn og hverjir eru í stjórnarandstöðu. Þingsköpin eiga ekki að lúta breytingum sem eingöngu stafa af breyttum styrkleika flokka. 2. minni hluti átelur að nú sé ráðist í breytingar á þingsköpum án þess að um þær sé full samstaða.

Á síðasta kjörtímabili starfaði þingskapanefnd með fulltrúum allra flokka, þar sem bæði stjórn og stjórnarandstaða voru í forustu. Þá voru lagðar til og svo samþykktar margháttaðar breytingar á þingsköpum, en meginforsenda þeirra allra var að allir flokkar væru samstiga. Breytingarnar voru samþykktar með öllum greiddum atkvæðum og enginn þingmaður greiddi atkvæði á móti þeim. Fyrirliggjandi frumvarp fer gegn þessari þýðingarmiklu samstöðu.

Breytingar sem unnar voru á þingsköpum voru í samræmi við skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem skilað var í september 2010 á þingskjali 1501. Þar er meðal annars lagt til að þingsköp Alþingis verði endurskoðuð. Í skýrslunni leggur þingmannanefndin jafnframt áherslu á að Alþingi „verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins.“ Þingmannanefndin taldi að endurskoða þyrfti verklagið sem tíðkast hefur við framlagningu stjórnarfrumvarpa með það að markmiði að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og lagði til að ríkisstjórn yrði gert að leggja fram stjórnarfrumvörp með góðum fyrirvara þannig að þingmönnum gæfist gott ráðrúm til að taka þau til faglegrar skoðunar, upplýstrar málefnalegrar umræðu og afgreiðslu.

Meðal þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á starfsháttum Alþingis nýverið er að flytja samkomudag Alþingis að hausti fram til annars þriðjudags í september í stað 1. október sem verið hafði samkomudagur þingsins um langt skeið. Jafnframt var svokallað septemberþing lagt af. Einn megintilgangur þessara breytinga var að skapa þinginu meira svigrúm til að fjalla um fjárlagafrumvarp og tengd mál. Reynslan sýnir að það er mikilvægt að þingið hafi rúman tíma til þessa, enda fer Alþingi með fjárstjórnarvaldið. Ráðuneyti og ríkisstjórn hafa marga mánuði til að undirbúa fjárlagafrumvarp og önnur tengd frumvörp en þingið hefur aðeins nokkrar vikur í því skyni. Breytingin sem gerð var þegar samkomudegi Alþingis var flýtt var mikilvæg í því augnamiði að bæta vinnubrögð þingsins og styrkja stöðu þess. Sú breyting sem nú er lögð til er skref til baka til lakari vinnubragða þingsins.

Með lögum nr. 85/2012 varð sú breyting á þingsköpum að kveðið var á um að frumvörp um breytingar á lögum sem útgjöld og tekjur fjárlagafrumvarps byggjast á skulu lögð fram samhliða fjárlagafrumvarpi. Var það einnig gert í því augnamiði að vanda betur vinnu Alþingis við fjárlög ríkisins. Þar sem hér var um mikla breytingu að ræða sem kallaði á verulegan undirbúning af hálfu fjármálaráðuneytis var ákveðið að þetta ákvæði tæki gildi 1. september 2013, en lögin tóku að öðru leyti gildi við upphaf 141. löggjafarþings. Með því var tryggt að nægur tími gæfist til að undirbúa þessar breytingar. Á grunni þeirrar vinnu sem farið hefur fram í ráðuneytum undanfarna mánuði við undirbúning fjárlagafrumvarps hefur ný ríkisstjórn nægan tíma til að koma sínum áherslum inn í þá vinnu og ekki á að stytta þann tíma sem þingið hefur til ráðstöfunar við fjárlagavinnu.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telur 2. minni hluti ekki fært að styðja þær breytingar sem frumvarpið felur í sér.

Undir þetta rita Ögmundur Jónasson, Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hjörvar og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.