142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einn af þeim þingmönnum sem hafa lýst harðri andstöðu við þetta frumvarp hæstv. ríkisstjórnar. Ég hef farið vel yfir það í ræðum sem ég flutti hér allnokkrar í gær af þessu tilefni. Eitt af því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði, þegar hann mælti fyrir málinu fyrir hönd hæstv. forsætisráðherra, var að að hans dómi væri illframkvæmanlegt að ná fram fjárlögum eða koma fram fjárlagafrumvarpi í tíma. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra ítrekað eftir því í gær hvaða rök stæðu að baki þeirri fullyrðingu og þeirri afstöðu hæstv. fjármálaráðherra. Það var ákaflega fátt um svör og auðvitað þekkjum við svarið. Svarið er einfaldlega það að ríkisstjórnin sjálf gróf sér þá gröf að skera undan tekjustofnum ríkisins, sem nam hátt á annan tug milljarða, og þarf tíma til að stoppa upp í það gat.

Mig langar að spyrja þann ágæta þingmann, Ögmund Jónasson, sem líka er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hvort nefndin hafi ekki, þegar hún skoðaði þetta mál í yfirferð sinni í dag, reynt að grafast fyrir um það hvaða rök eru þarna að baki. Ég tel að ekki síst stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi að kanna mjög vel nauðsyn þess að breyta lögum með hætti sem líklega mætti kalla einskiptisbráðabirgðaaðgerð.

Hv. þm. Brynjar Níelsson hefur sýnt þá árvekni að benda á mistök sem voru í hinu upphaflega frumvarpi. Ég tel að frumvarpið allt sé mistök.

Mig langar að spyrjast fyrir um það hvort stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi ekki að minnsta kosti gert veikburða tilraun til að grafast fyrir um það hvort ríkisstjórnin hafi einhver sérstök rök fyrir þessu frumvarpi.