142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa skýringu. Við erum tilbúin að breyta þingsköpum ef þau eru í aðra veru en tillagan sem liggur fyrir af því það er betur í takt við það sem við kjósum. Það yrði hugsanlega meiri sátt í kringum það. Fínt, við erum hins vegar sammála um það, ég og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, að mikilvægt er að fá fjárlagafrumvarpið og tekjufrumvörpin saman inn til að hægt sé að ræða þau saman. Það þekkja allir sem setið hafa í fjárlaganefnd að það mun skipta máli. Undanfarið hafa fjárlaganefndarmenn þurft að sæta því að vinna með fjárlagafrumvarpið sjálft frá því það er lagt fram — ég tek dæmi frá síðasta þingi, fjárlagafrumvarpið er lagt fram í september, tekjufrumvörpin sem með því áttu að vera komu fram í lok nóvember. 2. umr. um fjárlögin fór fram án þess að tekjufrumvörpin hefðu legið fyrir.

Virðulegi forseti. Ég legg á það áherslu, samhliða því sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefnir, að það er mikilvægt fyrir fjárlaganefnd að fá þessi tvö frumvörp inn samhliða til að vinna með. Ég er líka sammála hv. þingmanni um að auðvitað væri æskilegast að ekki þyrfti að standa í breytingum á þingsköpum á þann veg sem óskað er eftir hér og nú. Ég tek undir það að þeim eigi að breyta sem sjaldnast og þeim eigi að breyta í sátt allra eða flestra sem sitja á Alþingi.

Mér finnst hins vegar, ég verð að segja það, töluvert mikið gert úr þeirri einstöku breytingu sem hér er lögð til á sama tíma og menn tala um að þeir væru tilbúnir til að hliðra til og breyta bara ef það væri gert öðruvísi.