142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er spurning með flutningsmann málsins, hæstv. forsætisráðherra, hvort hann ætlar að halda sig alveg fjarri, hann náði ekki að vera hér að mæla fyrir málinu og maður hljóp í skarðið fyrir hann eins og stundum hefur áður gerst á undanförnum dögum. Þannig að hæstv. forsætisráðherra heiðraði okkur ekki með nærveru sinni við 1. umr. og gerir það heldur ekki nú við 2. umr. Mér finnst heldur miður að þetta frumvarp sé algjörlega munaðarlaust nema að því leyti að hæstv. félagsmálaráðherra heiðrar okkur með nærveru sinni, sem er að sjálfsögðu gott.

Þetta er frekar vandræðalegt og eiginlega dapurlegt, finnst mér satt best að segja, að við skulum þurfa að vera hér 4. júlí að ræða mál af þessu tagi þar sem ný ríkisstjórn biðst vægðar og játar sig sigraða gagnvart því að geta starfað samkvæmt lögum sem hafa legið fyrir um skeið og búið er að prufukeyra í framkvæmd á síðasta ári og eru ekki að tilefnislausu. Það er ekki eins og hér sé verið að víkja einhverju frá sem hafi bara dottið af himnum ofan. Þetta á sér langan aðdraganda, þetta hefur verið liður í því að styrkja umgjörðina um fjárlagagerðina og fjárreiður ríkisins og er hluti af samskiptum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þetta ættu hv. þingmenn, að minnsta kosti þeir sem einhverja reynslu hafa hér, að þekkja.

Lögð hefur verið í það talsverð vinna undanfarin ár að styrkja þessa umgjörð. Að einhverju leyti var það á dagskrá fyrir hrun en alveg sérstaklega eftir hrun þegar mönnum varð ljóst að veikleikar voru í þessari aðferðafræði hjá okkur. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom og veitti sérstaklega ráðgjöf um þetta, nefndir og starfshópar hafa unnið og búið er að hrinda í framkvæmd þó nokkru af því sem menn urðu ásáttir um að þyrfti að gera til að styrkja umgjörð ríkisfjármálanna og bæta vinnuna í aðdraganda fjárlagagerðar árlega.

Segja má að hrygglengjan í því sem þar hefur verið undir sé í fyrsta lagi að flýta ferlinu og hefjast handa strax upp úr áramótum að baki nýsamþykktum og í gildi gengnum fjárlögum með undirbúningi undir næstu fjárlög.

Í öðru lagi að leggja fram ramma og ætlunin hefur verið að komast í það form að samþykkja helst bindandi útgjaldaramma með þingsályktun að vori. Þá er eftirleikurinn mjög auðveldur til þess að gera því að þá liggja útgjaldarammar málaflokkanna fyrir og inn í þá er fyllt, frá og með vorinu og fram á sumar. Fjárlagafrumvarp á þá auðveldlega að geta komið fram í byrjun september. Að sjálfsögðu hefur svo verið hugsað að þessu tengdust að lokum ný fjárreiðulög og nefnd er búin að vera að störfum líklega talsvert á annað ár við að semja frumvarp til nýrra fjárreiðulaga. Um það hefur verið samstarf milli fjármálaráðuneytis og fjárlaganefndar. Þannig átti að reka smiðshöggið á þetta verk til að ná betur og traustar utan um þessi mál.

Þetta er nauðsynlegt að rifja upp vegna þess að við erum komin á undanhald gagnvart þessari aðferðafræði, þessari hugsun, þessari vinnu. Það er vandræðalegt fyrir nýja hæstv. ríkisstjórn að þurfa að játa sig sigraða í þessum efnum og biðjast hér griða. Sérstaklega vegna þess að maður fær það óneitanlega á tilfinninguna að stærstur hluti vandans sé ríkisstjórnin sjálf. Hún og stjórnarflokkarnir hafi notað tímann illa frá kosningum. Það var tiltölulega fljótt ljóst, strax fáeinum dögum eftir kosningar, að þessir flokkar stefndu á samstarf og af hverju hófust menn þá ekki handa? Af hverju gengu menn ekki í verkið? Nei, við horfðum öll upp á þetta, þjóðin, það voru tveir menn sem léku sér í hátt í fjórar vikur að borða pönnukökur. Engir starfshópar voru settir í gang, engir vinnuhópar út úr tilvonandi þingflokkum stjórnarliðsins voru virkjaðir eða nokkur skapaður hlutur (Gripið fram í.) og hefur kannski ekki verið enn þá, ég horfi hér á menn sem hefðu kannski getað verið liðsmenn í því og verið fulltrúar í starfshópum stjórnarflokkanna til undirbúnings því að taka völdin í landinu. Hvað voru menn að hugsa? Menn sóuðu tímanum fram undir lok maí, komu sér þá loksins saman og síðan virðist eitthvað lítið hafa gerst, satt best að segja.

Þetta er vandræðagangur sem ríkisstjórnin virðist að mestu leyti hafa búið sér til sjálf. Svo bætist það við sem hverjum má ljóst vera að ríkisstjórnin er að reisa gríðarlega þröskulda framan við sjálfa sig varðandi það að koma saman hallalausum fjárlögum á næsta ári. Það er það sem hefur meðal annars verið á dagskrá þessa þings og efni yfirlýsinga frá forustumönnum stjórnarflokkanna. Á borðum okkar liggja annaðhvort frumvörp um tekjutap hjá ríkinu eða ný útgjöld upp á um 4,5 milljarða á þessu ári, sem verður þá aukinn halli á ríkissjóði í ár, og 12 milljarða hið minnsta næsta ár auk yfirlýsinga af því tagi að auðlegðarskattur verði ekki framlengdur. Þá er stærðargráðan orðin 20 milljarðar plús á gatinu sem ríkisstjórnin er sjálf að búa til í forsendur fjárlaga ársins 2014.

Það er von að þetta standi í þeim. Ég skil það út af fyrir sig, en ég held að vandinn sé ekki sá að tíminn sé orðinn naumur heldur að ríkisstjórnin á eftir að taka ákvarðanir. Hún er ekki komin að niðurstöðu um það hvaða pólitískar áherslur og ákvarðanir eru nauðsynlegar til þess að skrúfa saman fjárlögin. Það óttast ég að sé mesti vandinn.

Ég velti því fyrir mér hvernig þessari ríkisstjórn með þetta verklag hefði gengið á árinu 2009, hvernig þá hefði gengið að gera allt sem þurfti að gera. Þá voru kosningar líka. Þá fórum við inn í fjárlögin á fyrri helmingi ársins, á miðju ári, fyrir júní og fórum í viðamiklar ráðstafanir í ríkisfjármálum innan fjárlagaársins upp á á þriðja tug milljarða króna í tekjuöflun og sparnaðaraðgerðir, þ.e. stærðargráðan var milli 40 og 50 milljarðar á ársgrundvelli. Við lögðum líka fram fyrstu ríkisfjármálaáætlunina til meðallangs tíma og þá stóð þing til 28. ágúst linnulaust. Samt komum við fjárlögum fram á réttum tíma með gríðarlega viðamiklum bandormum sem tengdust áframhaldandi ráðstöfunum í ríkisfjármálum — tvö stykki ef ég man rétt, stundum var talað um góða og vonda bandorminn. Vissulega var þá framlagningardagurinn 1. október en þetta hafðist allt með mikilli vinnu.

Þess vegna ætla ég að segja að það er einn aðili sem ég hef samúð með í þessu máli og það er starfsfólkið í fjármálaráðuneytinu. Ég verð að játa að það er veikur blettur í hjarta mínu gagnvart því. Ég veit, vegna þess hversu illa tíminn hefur verið notaður af hæstv. ríkisstjórn, að það yrði mikil vinnutörn hjá því góða fólki að ná þessu saman og koma því fram og ná því út úr prentvélunum fyrir 10. september. En ég er algerlega viss um að það duglega fólk mundi skila sínum hlut ef það fengi pólitískar ákvarðanir strax til að vinna úr. Þess þarf. Það getur að sjálfsögðu ekki tekið hinar pólitísku ákvarðanir um niðurskurð, tekjuöflun eða aðrar slíkar ráðstafanir, þær verða ráðherrarnir og ríkisstjórnin að taka og þeirra þingflokkar. Mig grunar að þar liggi hundurinn grafinn, að það sé eftir. Það vekur manni dálítinn ugg. Það er dálítill hrollur í manni, það er vandræðablær á því.

Svo er alveg rétt sem hér kom fram áðan að hinn endinn í málinu er sá að liður í þessari bættu aðferðafræði hefur verið að afgreiða fjáraukalög og fjárlög eins tímanlega á haustþinginu og mögulegt er. Það skiptir miklu máli. Varðandi fjáraukalögin er mjög æskilegt fyrir stofnanir að fá þau afgreidd — best væri í október, en í öllu falli ekki seinna en í nóvember og fjárlögin sjálf ekki seinna en um mánaðamótin nóvember/desember. Það er til gríðarlegs hægðarauka fyrir forstöðumenn opinberra stofnana að þetta sé eins tímanlegt og hægt er. Það hefur nákvæmlega verið liður í því að komast út úr því gamla fari að vera með afgreiðslu fjárlaga kannski rétt fyrir jól eða jafnvel milli jóla og nýárs eins og stundum gerðist á árum áður. Við eðlilegar aðstæður á auðvitað ekki að vera nokkur minnsti vandi að standa þannig að málum. Þarna förum við aftur á bak með tillögu hæstv. forsætisráðherra, því miður, og það er dapurleg byrjun. Það veit ekki á gott, satt best að segja.

Varðandi glímuna við fjárlögin og að koma þeim saman er það ekkert flókið verk nema menn ætli að fara í miklar breytingar á gildandi tekjuöflunarlögum og/eða þeim útgjaldarömmum sem menn hafa lagt bæði í fjárlögum yfirstandandi árs og ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn sent út bréf um að draga eigi saman um 1,5% í rekstri, aðhald upp á 1,5%, sem mun nú taka í ofan á allt sem á undan er gengið, en gott og vel. Ég ætla síðastur manna fyrir fram að segja að ekki kunni að þurfa ýmislegt til til að ná markmiðinu fram um hallalaus fjárlög 2014. En hvað halda menn að það sé lengi gert að reikna inn í fjárlagagrunninn 1,5% sparnað ef ekkert annað er á dagskrá? Það tekur enga stund. Það er ekki þannig að það þurfi endilega einhver viðamikil tekjuöflunarfrumvörp eða einhverja mikla bandorma til að koma saman fjárlögum. Ef allt er með felldu þarf nánast ekki neitt nema eitt, sem er sáraeinfalt líka, að uppfæra krónutölufjárhæðir slíkra gjalda eins og árlega er gert, að láta ýmiss konar gjaldtöku fylgja verðlagi. Það er gert með einföldum krónutöluuppreikningi í sáraeinföldu þingmáli.

En ef menn ætla í viðameiri aðgerðir þá að sjálfsögðu getur það tekið meira pláss. Ég er þó algerlega sannfærður um að það að vandamálið núna sé að láta tekjuöflunarfrumvörpin fylgja fjárlögunum er viðbára því að þau eru ekki tímafrek. Það eru fjárlögin sjálf sem hljóta að vera hér vandinn og einhver vandræðagangur við að taka pólitískar ákvarðanir sem embættisfólk þarf til að geta lokið vinnunni. Það er alveg rétt að rúman mánuð þarf í afstemmingar, greinargerðarskrif og svo umbrot og prentun fjárlagafrumvarps. Það er rétt. Það sem hér er á dagskrá er ósköp einfaldlega yfirlýsing um að ríkisstjórnin þorir ekki að treysta því að hún verði komin til botns í slíkum málum fyrir júlílok. Vegna þess að ef svo væri er ekkert vandamál að klára þetta á 40 dögum frá og með byrjun ágúst og fram til 10. september. Það veit ég upp á mína tíu fingur að það mundi hið duglega lið ráðuneytanna, en auðvitað koma að þessu fleiri en fjármálaráðuneytið, leika sér að að gera. Með fjármálaráðuneytinu vinnur fjárlagafólk að minnsta kosti stærri ráðuneytanna og semur kaflana um þau ráðuneyti inn í greinargerð fjárlagafrumvarpsins. Með góðri samvinnu er þetta allt saman hægt og ætti ekki að þurfa að vefjast svona óskaplega fyrir mönnum af því að þetta hefur orðið léttara með hverju árinu sem hefur liðið frá og með 2011. En nú virðist þetta því miður vera að fara í hina áttina og það er ákaflega dapurlegt.

Ég segi svipað og síðasti ræðumaður að þegar þessar beiðnir komu fram og við ræddum þær í mínum þingflokki fannst mér ekki annað hægt en að taka til skoðunar þessa ósk frá hæstv. ríkisstjórn að hún væri í vandræðum og væri að biðja um gott veður. Ég vona að það sé nú ekki bara til þess að leika sér í sumar og éta meiri pönnukökur heldur til að fara í það af alvöru að koma saman sómasamlegu fjárlagafrumvarpi. Við settumst yfir þetta og ræddum málin og niðurstaða okkar varð sú að við mundum eftir atvikum vera tilbúin til samkomulags að bjóða upp á að tekjuöflunarfrumvörpin mættu koma kannski eitthvað seinna fram. Ég sagði sjálfur við hæstv. fjármálaráðherra ef það mætti verða til málamiðlunar að bæta við viku, að við mættumst þá um miðjan september, 15. eða 18., mundi ég vera tilbúinn til að skoða það en mér finnst alveg ómögulegt að fara alla leið aftur til 1. október. Mér finnst það of mikil uppgjöf og eftirgjöf, get ekki sætt mig við það. Ég mun fylgja félögum mínum í því að greiða atkvæði gegn því úr því að ríkisstjórnin af óbilgirni er ekki fáanleg til að mætast einhvers staðar á miðri leið.

Frú forseti. Svona er þetta. Ég sé að hæstv. forsætisráðherra situr hér … [Hlátur í þingsal.] Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra situr hér í hliðarsal, hann má ekki alveg við bindast í þingsalnum en kemst þó hálfa leið með því að sitja þarna í sófa. Ég læt það óátalið að hann virði þá ósk mína að vera í þingsalnum undir umræðunni með þeim hætti.