142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það hefur þá orðið einhver smámisskilningur milli okkar, en samkomudagur Alþingis var samkvæmt nýju ákvæðunum í fyrra annan þriðjudag í september. Þá var ekki komið í gildi ákvæði um að tekjujöfnunarfrumvörp skyldu fylgja með. Það var það sem ég átti við. Þannig að fjárlagagerðinni og vinnunni við hana var allri hraðað í fyrra. Settar voru upp nýjar tímalínur og ný tímaáætlun var undirbúin og samin í fjármálaráðuneytinu, meira að segja fyrir áramótin 2012/2013, 2011/2012, áður en ég yfirgaf það. Síðan tók arftaki minn við og við keyrðum nýja tímalínu í fjárlagaundirbúningnum á árinu 2012 sem var um fjórum til sex vikum framar að öllu leyti heldur en áður hafði verið gert. Það gekk bara ágætlega. Það krafðist þess að vísu að við lentum nánast að öllu leyti niðurstöðutölum og afstemmingum fyrir júnílok 2012. Að því leyti til, úr því kominn er júlí og ríkisstjórninni hefur unnist svona hægt, viðurkenni ég vissan vanda.

Varðandi rammafjárlagagerðina lítum við í raun og veru svo á og höfum gert í kannski tvö, þrjú, fjögur ár, á vissan hátt lengur, að við keyrum tiltekna fjárlagaramma. Þeir hafa fylgt í greinargerð fjárlagafrumvarpanna um allmörg ár. En samkvæmt þeirri vinnu sem hefur verið í undirbúningi á að festa þetta ferli betur og betur í sessi með því að lokum að rammarnir fái sjálfstæða afgreiðslu, t.d. eins og er gert á sænska þinginu, um það bil í apríllok og þeir séu bundnir eftir það. Framkvæmdarvaldið er þá bundið af römmunum sem Alþingi hefur staðfest og getur ekki farið út fyrir þá í framlagningu fjárlagafrumvarpsins.

Þetta er auðvitað ekki komið svona langt. Meiningin er og vonir hafa verið bundnar við, voru það alla vega fyrir einu og hálfu ári síðan, að við gætum kannski á árinu 2014 keyrt fjárlagagerð algerlega til enda á þessum forsendum og þá vonandi að settum nýjum fjárreiðulögum.