142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef fengið að hlýða á hvernig hugsanlegt fjárreiðufrumvarp á að líta út og hvernig menn ætla sér í þá vinnu. Ég tel það til farsældar fyrir fjárlögin í heild sinni sem og þingið sjálft og fjárlaganefnd sem á að fjalla um það og fagna því að við erum langt komin með að vinna slíkt.

Ég ætla að halda áfram, virðulegur forseti, í tengslum við ræðu hv. þingmanns um fjárlögin. Hann lýsti því líka hér og nú að afstemmingin fyrir fjárlögin hefði verið á síðasta ári tilbúin og henni lokið í júní. Þá spyr ég hv. þingmann, sem reyndar var nú ekki fjármálaráðherra á síðasta ári heldur höfðum við tvo aðra: Hvernig stendur þá á því, að hans mati, ef þetta er klárt í lok júní, að tekjufrumvörpin koma ekki fyrr en í lok nóvember? Að það þurfi júlí, ágúst, september, október og nóvember, um fimm mánuði frá því afstemmingin á sér stað, til að leggja fram tekjufrumvörpin sjálf sem komu inn í þingið í nóvember 2012 fyrir fjárlagaárið 2013?