142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt, ég var ekki fjármálaráðherra á árinu 2012 en ég var efnahags- og viðskiptaráðherra og sat í ráðherranefnd um ríkisfjármál þannig að ég var ekki mjög langt í burtu og við unnum þetta í góðu bróðerni.

Það er rétt, við lukum nokkurn veginn algerlega afstillingum í júnílok, minni háttar fínstillingar fóru fram í byrjun ágúst. Það gerðum við m.a. til þess að starfsfólk fjármálaráðuneytisins og annarra ráðuneyta þyrfti ekki að liggja í greinargerðarskrifum í júlí, að menn gætu átt eitthvert lágmarkssumarfrí og komið svo aftur í byrjun ágúst. Þá nægði tíminn frá ágústbyrjun fram til 10. september til að ljúka því öllu saman hvað og varð.

Hluti tekjuöflunarmálanna kom mjög seint í fyrrahaust, það er rétt, ekki öll. Mér finnst ekki sanngjarnt að segja það. Það er tæknileg útfærsla. En veruleikinn er sá að um leið og maður lokar fjárlagafrumvarpinu og afstemmir það er maður væntanlega búinn að ákveða hvað maður þarf að gera í tekjuöflun. Það verður hvort sem er að liggja fyrir. Það er ekki svo tafsöm vinna að mínu mati.(Gripið fram í.)

Ég tel því að hæstv. ríkisstjórn sé að gera mikið úr þessum vandræðum sínum, nema þetta sé alvarlegra ástand á bænum en við höfum hugmynd um og meira sé á bak við þetta en mætti ætla, þetta sé ávísun á einhvern enn þá djúpstæðari vandræðagang á stjórnarheimilinu en enn hefur komið á daginn.

Hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra ætti að sjá sóma sinn í að koma aðeins inn í þessa umræðu og upplýsa okkur um þetta, hvar flöskuhálsarnir eru, útskýra og rökstyðja hvers vegna þarf þessa miklu seinkun.