142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann að vera af því að ég er nýr þingmaður að mér finnst eins og verið sé að gera svolítið fjaðrafok út af litlu. Mér er þessi umræða svona nokkurn veginn óskiljanleg. Hún er að mörgu leyti tæknilegs eðlis. Staðan hefur ekki alltaf verið góð hjá fyrri ríkisstjórnum. Hér er einfaldlega verið að leggja þetta til og gefnar eru ástæður fyrir því. Mér er alveg óskiljanlegt af hverju stjórnarandstaðan setur sig upp á móti þessu þegar aðstæður eru þannig, ríkisstjórnin tekur seint við. Af hverju setur hún sig á móti þessu á sama tíma og hún segist reyna að vinna í sátt og samlyndi? Mér finnst eins og stjórnarandstaðan sé að hengja sig í prinsippum þegar maður hlustar á málflutning hv. þingmanna Árna Þórs Sigurðssonar og Steingríms J. Sigfússonar. Þannig upplifi ég þetta.

Hér er verið að gera mikið úr litlu. Það er ekki eins og þetta sé stórkostlegur tími. Aðstæðurnar eru þessar. Ríkisstjórnin tók seint við. Það kann að vera að þingið þurfi þá að vera fram í miðjan desember eða síðustu viku fyrir jól í stað þess að ljúka yfirferðinni í byrjun desember. Ég segi bara: Hvað með það?

Ég held að það sé ekkert mál að gera sátt um þetta ef menn vilja sátt. En mér sýnist ekki vera mikill sáttahugur. (ÁÞS: Er boðið upp á það?)