142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni, það var a.m.k. eitt rétt í ræðu hans, að við erum að hengja okkur í ákveðin prinsipp, það er alveg hárrétt. Þetta er nefnilega ekki prinsipplaus stjórnarandstaða eins og sú síðasta var. Okkur er annt um að leikreglurnar á þingi séu haldnar og virtar, þeim sé ekki breytt nema helst í samstöðu. Það skiptir líka máli að passa upp á hlut Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Auðvitað snýst þetta líka um það að þinginu sé ekki skammtaður naumari tími en ástæða er til. Þess vegna þarf hæstv. ríkisstjórn að rökstyðja það vel að hún geti ekki lagt frumvarpið fram á réttum tíma. Ég tel þau rök ekki hafa komið fram, bara almenn orð. Getur ekki hæstv. fjármálaráðherra eða flutningsmaður málsins rökstutt þetta? Það væri nú gaman að flutningsmaður málsins tæki einu sinni til máls, hæstv. forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Það er afar sjaldgæft að flutningsmenn mála taki aldrei til máls í umræðum um þau. Ég þekki þess ekki mörg dæmi í þingsögunni. Kannski verður nú brotið í blað og flutningsmaður málsins muni aldrei taka til máls í umræðu um sitt eigið mál. Það væri frekar óvenjulegt.

Vill hæstv. forsætisráðherra koma hér og reyna að færa fram einhver sómasamleg rök fyrir því að þetta þurfi að vera svona? Að framkvæmdarvaldið þurfi að hafa af þinginu þrjár vikur af tíma þess, þeim tíma sem því er ætlað að fara yfir fjárlagafrumvarpið? Þetta er ekki tittlingaskítur. Þetta eru ekki smámunir, hv. þingmaður, að mínu mati, en okkur getur greint á um hversu mikilvægir þeir eru. En það er hárrétt hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni og ég þakka honum fyrir að vekja athygli á því að núverandi stjórnarandstaða er ekki prinsipplaus eins og sú síðasta.