142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara vísa til þess sem kom fram í ræðu minni og mér finnst ekki sanngjarnt að reyna að afgreiða umræðuna þannig að stjórnarandstaðan hafi sýnt einhvern alveg sjaldgæfan ósveigjanleika og að við séum að hengja okkur í þetta með ómálefnalegum og ómaklegum hætti, án þess að ég segi að neinn hafi beinlínis sagt það.

Ég upplýsti hér úr ræðustóli hvað ég hefði sagt í mínum þingflokki, tala þar fyrir sjálfan mig. Ég tók það fram fyrir mína hönd að ég væri alveg til í:

a. að fallast á að tekjuöflunarfrumvörpin, bandormarnir, fengju að koma eitthvað seinna fram,

b. jafnvel að skoða það að mætast á miðri leið og seinka samkomudeginum til 15., 18. september, en lengra vildi ég ekki ganga.

Kannski voru sumir félaga minna í stjórnarandstöðunni herskárri en þetta, en ég hefði verið tilbúinn til að skoða málin á þeim nótum. En það er ekki vottur af vilja til slíks af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það er bara 1. október eða dauði. Þannig er ástandið á bænum. Þá náum við ekki saman.