142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að taka undir með þingmönnum sem hér hafa talað í síðustu ræðum um að það skortir algjörlega á að ríkisstjórnin hafi skýrt hverjar þær miklu raunir eru sem steðja að ríkisstjórninni við að koma saman fjárlagafrumvarpi sem kalla á þessa frestun. Þegar málið var í upphafi kynnt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni var óskað eftir að við veittum fyrirgreiðslu til þess að hin nýja krafa um að fylgifrumvörp, tekjuöflunarfrumvörp, fylgdu fjárlagafrumvarpi yrði ekki að veruleika nú. Þegar við tókum vel í það, bjarteyg eins og við nú erum og viljum gjarnan hjálpa ríkisstjórninni með hvaðeina, kom í ljós að annað lá undir, að menn treystu sér ekki heldur til að koma saman fjárlagafrumvarpi. Það felur í sér mikla vangetu ríkisstjórnar, skort á verkstjórn á upphafsmetrunum. Það á að vera hægt að koma saman fjárlögum og það á að vera vandalaust við þessar aðstæður.

Ég hef tekið þá afstöðu að leggjast ekki gegn þessu máli og ég mun sitja hjá. En ég vil beina því alveg skýrt til hæstv. forseta að þegar gengið er fram með þessum hætti og ríkisstjórnin treystir sér ekki til að gefa þinginu þann tíma til að fjalla um fjárlög og tekjuöflunarfrumvörp sem það á rétt á og kveðið er á um nú í þingsköpum felur það í sér að verið er að taka þriggja vikna vinnutíma við fjárlög af þinginu. Því segi ég: Þessi ríkisstjórn getur ekki vænst þess að frumvörp sem hún leggur fram í nóvember, eftir að vika er liðin af nóvember, nái samþykkt fyrir jól. Þó svo að hún geti samkvæmt þingsköpum í dag lagt fram frumvörp allt fram til 30. nóvember er hún að taka af okkur vinnutímann sem við ættum þá að hafa til að sinna slíkum málum. Það verður meira álag á þinginu og það verður flóknara að glíma við fjárlögin á þeim skamma tíma. Því bið ég ríkisstjórnina um að gera sér hógværar væntingar um afgreiðslu mála fyrir jól ef þau koma fram seinna en þegar vika er liðin af nóvembermánuði.