142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál var, eins og áður hefur komið fram, tekið til meðferðar í hv. atvinnuveganefnd milli 2. og 3. umr. Eins og ég gat um í lokaræðu minni við 2. umr. lágu fyrir hugmyndir um ákveðnar breytingar á frumvarpinu fyrir 3. umr.

Það hefur komið í ljós við vinnu á þessu frumvarpi, og hefur svo sem verið ljóst, að sá megingalli er á núverandi kerfi okkar, eða gildandi lögum um veiðileyfagjald, að gjaldið leggst með þeim hætti á marga útgerðar- eða veiðiflokka að það er hreinlega ekki hagkvæmt, borgar sig ekki, fyrir útgerðir að sækja þann afla í sjó.

Við getum séð afleiðingar þess í hendi okkar, virðulegi forseti. Ef við erum farin að leggja svo mikil veiðigjöld á ákveðna stofna, sem hreinlega gerir að verkum að ekki borgar sig fyrir útgerðarmenn að sækja þann afla, er mikil hætta á að þjóðarbúið verði af miklum tekjum. Þetta er raunveruleg hætta og er alveg ljós í tilfelli kolmunna og á við nánari skoðun væntanlega við um fleiri tegundir. Nefndar hafa verið í því sambandi keila, langa, úthafsrækja, gulllax og mögulega flestir þeir flatfiskar sem við erum að sækja. Það geta allir séð að þetta er mjög letjandi og má líkja við að skattheimta á okkur sem launafólk í landinu væri orðin þannig að það borgaði sig alls ekki að vinna, borgaði sig að hætta að vinna. Þannig skattheimta gengur ekki upp. Skattheimta verður í eðli sínu alltaf að vera það sanngjörn og eðlileg að það borgi sig að skapa verðmæti með vinnu eða framleiðslu.

Meiri hluti atvinnuveganefndar komst að þeirri niðurstöðu, í vinnu sinni milli 2. og 3. umr., að kolmunninn, sem klárlega er mikilvægur í þessu samhengi, þ.e. þar eru upphæðirnar hæstar — að ástæða væri til að undanleggja þá tegund sérstöku veiðigjaldi. Þetta hefur valdið miklu uppnámi hér í þinginu og stór orð fallið og talað um að við í meiri hlutanum séum að lækka enn frekar veiðigjöldin. Vissulega lækkar upphæðin um þetta en á móti kemur að ákveðinn frádráttarliður í frumvarpinu mun ekki leiða til þeirrar lækkunar sem reiknað var með, við endurskoðun kom það í ljós. Þannig hefði frumvarpið og lögin verið að skila mjög svipuðu veiðigjaldi, nánast sama veiðigjaldi, og lagt var upp með í frumvarpi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Til að greiða fyrir þingstörfum — við höfum verið sökuð um það af hálfu minni hlutans í þinginu að rjúfa eitthvert samkomulag, að mínu mati reyndar gert allt of mikið úr því — fjaðrafok, stormur í vatnsglasi, úlfaldi úr mýflugu — vegna þess að þetta eru nú í öllu stóra samhenginu sáralitlar breytingar en gætu verið mjög mikilvægar. En til þess að leita sátta um þau þinglok sem stefnt er að í kvöld höfum við í meiri hlutanum ákveðið að draga til baka breytingartillögu okkar, þ.e. a-lið breytingartillögunnar við 2. gr., þar sem segir:

„Við 1. efnismgr. b-liðar bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kolmunnaafli er undanþeginn sérstöku veiðigjaldi samkvæmt lögum þessum.“

Við drögum þennan hluta breytingartillögunnar til baka og vonum að minni hlutinn kunni að meta þá sáttarhönd sem við réttum fram. Þetta er líka gert í ljósi þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra mun skoða þetta mál mjög vel á milli þinga og fara þá mögulega yfir aðra stofna sem hér liggja undir á sömu forsendum. Við munum þá væntanlega sjá nýtt frumvarp líta dagsins ljós á haustdögum eða næsta vetur til að leiðrétta þetta og tryggja að útgerðarmenn í landinu reyni að sækja allt það sem hægt er til að hámarka arð þjóðarinnar af þessari mikilvægu auðlind.

Í tilfelli kolmunnans er staðan þannig að veiðar á honum eru mjög seint á fiskveiðiárinu. Þær veiðar munu ekki hefjast fyrr en vorið 2014 og standa fram eftir sumri eða fram á haust. Því er svigrúm til breytinga næsta vetur til að leiðrétta fyrir þessari skekkju og ég tel mjög mikilvægt að það verði skoðað ítarlega. Breytingar í þessu frumvarpi fela meðal annars í sér að leiðrétta enn eina ósanngirnina sem er í gildandi lögum en hún er sú að gjalddagar á veiðigjaldi taka ekki tillit til þess hvenær verðmæti eru sköpuð. Þannig er það í tilfellum margra útgerða í landinu, stórra og smárra, að menn eru oft búnir að borga veiðigjöldin að fullu til ríkissjóðs áður en þeir fara á veiðar og skapa verðmætin og fá tekjur af þeim veiðum.

Við erum að breyta þessu atriði í því frumvarpi sem liggur fyrir, einn af þeim agnúum sem við erum að leiðrétta, sem gerir að verkum að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra getur seinkað gjalddögum þannig að meiri sanngirni ríki og innheimtan eigi sér þá stað um það leyti sem verðmætin eru sköpuð. Það getum við öll heimfært upp á okkur sjálf, hversu ósanngjarnt okkur þætti ef verið væri að innheimta af okkur skatt af tekjum okkar sem væru væntingartekjur fram í tímann. Við værum búin að borga það. Margt getur komið upp í millitíðinni, hvort sem er hjá einstaklingum eða fyrirtækjum, breytingar í rekstri, bilanir og margt sem veldur því að menn ná jafnvel ekki þeim verðmætum sem í hlut eiga en eru samt sem áður búnir að leggja út fyrir veiðigjöldunum.

Ég treysti því að hæstv. ráðherra muni skoða þetta af fullri sanngirni og innheimta gjöldin eftir því sem verðmætin skapast hjá okkar fyrirtækjum. Ég vona að sú sáttarhönd sem við í meiri hluta atvinnuveganefndar réttum fram í þessu máli megi verða til þess að greiða fyrir þingstörfum.