142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, 9 milljarðar eða 7, 3 milljarðar eða 2,6, þetta eru náttúrlega allt stórar tölur, en rétt skal vera rétt. Þess vegna talaði ég við m.a. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og þingmenn Framsóknarflokksins. Talan 3 milljarðar sem ég kem með er sú sem ég heyrði m.a. frá þingmönnum stjórnarflokkanna, hana heyrði ég þar. Svo hef ég heyrt aðrar hærri tölur annars staðar. (Gripið fram í.)

Ég hef ekki þá menntun og er ekki það vel inni í þessum málum að ég geti sjálfur farið og skoðað þetta í þaula, þess vegna reiði (Gripið fram í.) ég mig á það sem m.a. aðrir þingmenn segja og það sem gestir atvinnuveganefndar hafa sagt. Mönnum ber ekkert saman um þessar tölur, það er alveg ljóst. Mönnum ber ekki saman um tölurnar.

Þannig að ég var bara hógvær og reyndi að vera heiðarlegur og fara ekki í 4 milljarða kr. töluna, sem hv. Jón Gunnarsson þingmaður hefur bent mér á, og fór frekar í 3 milljarða. En ef þetta eru 2,6 milljarðar og 6,4 milljarðar, eins og hv. þingmaður segir, samtals um 7,5 milljarðar, er það samt sem áður skerðing sem því nemur. Það er verið að skerða hlut almennings um það, hlut þjóðarinnar sem á auðlindina, og þjóðin að fá að taka lokaákvörðun um það hvort hún sætti sig við þá skerðingu.