142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[22:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur slá á áhyggjur þeirra sem óttast að það verði tíðar stjórnarskrárbreytingar út af þessu ákvæði. Það gerist ekki vegna þess að hlutfallið er svo hátt að það má kalla þetta frumvarp móðgun við þjóðina. Að halda virkilega að þessi breyting muni gera það auðveldara að gera breytingar á stjórnarskránni er, með fullri virðingu, hlægilegt ef það væri ekki svona sorglegt. En það er eins og frumvarpið sé alveg sérstaklega gert til að gera það erfitt.

Vinnubrögðin við þetta frumvarp hafa oft verið nefnd. Þau voru hræðileg í einu orði sagt og ekki bjóðandi. Þegar við píratar fórum að tala við grasrótina okkar um þetta mál vegna þess að okkur fannst við vera í svolitlum bobba — við gátum eiginlega ekki sagt já, gátum ekki setið hjá, gátum ekki sagt nei — varð ljóst eftir mjög stutta umræðu að allir voru á því að segja nei við þessu vegna þess að þetta er ekki bjóðandi. Þetta er ekki til bóta. Þetta er bara illa unnið, gagnslaust í skásta falli, getur líka gefið stjórninni tækifæri til að þykjast vera lýðræðisleg með þessum ógnarháu kröfum um að 40% allra kjörbærra manna á landinu segi já við stjórnarskrárbreytingu. Þetta er svo óhugsandi að meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn er til í þessar breytingar. Ég held að það þurfi ekki að segja mikið meira en það. (ÖS: Meira að segja Birgir Ármannsson.)