142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[22:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú undir lok þessarar umræðu vil ég þakka nefndinni fyrir hennar störf. Ég vil jafnframt þakka öðrum þeim sem hafa ekki í öllum atriðum verið sáttir við efnisatriði frumvarpsins eins og þau liggja fyrir þinginu fyrir að hafa tryggt málinu framgang á þessu tiltölulega stutta þingi sem við höldum hér að sumarlagi.

Eins og umræðan hefur borið með sér hafa ýmis álitamál verið rædd, ekki síst hvað varðar stjórnarskrárvarin réttindi, og hafa þau verið með í umræðunni allt frá 1. umr. málsins og á þeim verið tekið eða þau skoðuð sérstaklega í nefndarstarfinu.

Ég tel að það hafi verið nægilega vel gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem taka þarf tillit til og lýsi ánægju minni með að málið stefni nú í að fást afgreitt á þinginu. Ég vísa til þess sem ég sagði strax í framsöguræðu minni sem var að það aukna eftirlit með lausafjárstöðu í kerfinu sem Seðlabankanum er gert kleift að stunda er mikilvægt, meðal annars vegna þeirra veikleika sem komu fram haustið 2008 eða í aðdraganda þess og ekki reyndist vera nægjanleg yfirsýn yfir hjá eftirlitsaðilum en ekki síður vegna þess að áform eru uppi um að afnema gjaldeyrishöft, við skulum segja á komandi missirum, næstu árum, eins fljótt og auðið er. Þá er gríðarlega mikilvægt að allar heimildir séu til staðar til að eyða óvissu og áhættu áður en ákvarðanir eru teknar.